Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hörð þungunarrofslög staðfest í Oklahóma

Kevin Stitt, ríkisstjóri í Oklahoma
 Mynd: Wikimedia Commons
Kevin Stitt, ríkisstjóri í Oklahóma, staðfesti í dag einhver hörðustu þungunarrofslög sem um getur í Bandaríkjunum. Drögum að meirihlutaáliti Hæstaréttar sem ógildir stjórnarskrárvarinn rétt til þungunarrofs var lekið í gær. Hæstiréttur Bandaríkjanna staðfesti þann rétt árið 1973 í málinu Roe gegn Wade.

Ríkisstjórinn kvaðst afar stoltur undirrita frumvarpið SB 1503 sem lög, í yfirlýsingu sem hann birti á Twitter. Lögin ganga undir heitinu hjartsláttarlögin eins og svipuð löggjöf í Texas sem samþykkt var í fyrra og olli hrinu mótmæla og lögsókna.

Samkvæmt ákvæðum laganna verður þungunarrof óheimilt eftir sex vikur frá getnaði nema heilsu móður stafi hætta af meðgöngunni. Ekki verður heimilt að framkvæma þungunarrof þótt um sifjaspell eða nauðgun hafi verið að ræða.

Stitt sagði að Oklahóma skyldi verða það ríki Bandaríkjanna sem verndaði best líf ófæddra barna. Hann kvaðst vera fulltrúi allra fjögurra milljóna íbúa ríkisins sem hann sagði að langstærstum hluta styðja vernd við lífið. 

Talið er að minnst 26 ríki muni banna þungunarrof eða hefta aðgengi að því til muna ef hæstiréttur ógildir Roe gegn Wade. Stitt og skoðanabræður hans í Repúblikanaflokknum hafa lengi barist fyrir því að niðurstöðunni frá 1973 verði snúið við.