Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Foringi glæpagengis framseldur til Bandaríkjanna

epa04538195 The logo of the Federal Bureau of Investigation (FBI) at the J. Edgar Hoover FBI Building in Washington DC, USA, 22 December 2014.  EPA/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA - EPA
Leiðtogi voldugasta glæpahrings Haití var framseldur til Bandaríkjanna í dag. Yfirvöld á Haití segja að líkja megi ofbeldisöldunni í landinu við stríðsástand. Maðurinn hefur stjórnað glæpastarfseminni úr fangaklefa í Port-au-Prince.

Alþjóðleg handtökuskipun var gefin út í apríl á hendur Germine Joly, sem gengur undir viðurnefninu Yonyon, og fer fyrir glæpagenginu 400 Mawozo. Hann sat í fangelsi í höfuðborginni Port-au-Prince en var fluttur þaðan í fylgd alríkislögreglumanna til Washington höfuðborgar Bandaríkjanna.

Hann hefur ekki látið fangelsisvistina stöðva skipulagningu margvíslegra glæpa í landinu. Í Bandaríkjunum bíða Joly ákærur vegna ólöglegs vopnainnflutnings og fyrir að hafa rænt og krafist lausnargjalds fyrir bandaríska ríkisborgara.

Glæpagengi Jolys rændi sautján norður-amerískum trúboðum og ættingjum þeirra í október á síðasta ári. Fimm börn voru í þeim hópi.

Sendifulltrúi frá Karíbahafsríkinu Dómíníku, næsta nágranna Haití á eynni Hispanjólu, hefur verið í haldi gengisins frá því á föstudag. Gengið krefst hálfrar milljónar bandaríkjadala í lausnargjald fyrir hann.

Glæpagengið 400 Masowo hefur um árabil ráðið lögum og lofum á svæðum umhverfis Port-au-Prince. Til að mynda hafa þau eina veginn frá höfuðborginni til norðurhluta landsins á valdi sínu og landleiðinni til Dómíníku.

Vopnaðar glæpasveitir hafa einnig haft hluta vegarins frá höfuðborginni til suðurhluta Haití á valdi sínu síðan í júlí í fyrra. 

Undanfarna tíu daga hafa átök milli 400 Masowo og annara glæpagengja lamað úthverfi norðanvert í Port-au-Prince. Hundruð fjölskyldna neyddust til að flýja svæðið en minnst 20 almennir borgarar hafa farist í átökunum.