Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ákærður fyrir að hóta lífláti með lyfjum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglustjórinn á Vestfjörðum hefur gefið út ákæru á hendur karlmanni á Vestfjörðum fyrir áralangt ofbeldi hans gegn eiginkonu hans og þremur börnum. Maðurinn er læknismenntaður og í ákærunni segir að hann hafi hótað konunni að binda enda á líf hennar með lyfjagjöf og skoða sjúkraskrár hennar. Aðalmeðferð málsins verður við héraðsdóm Vestfjarða síðar í þessum mánuði.

Maðurinn er ákærður fyrir hegningarlagabrot og brot gegn barnaverndarlögum. Í ákærunni, sem fréttastofa hefur undir höndum, segir að ofbeldið hafi staðið yfir um áralangt skeið. Það hafi hafist þegar konan var barnshafandi og samkvæmt ákærunni réðst maðurinn þá á konuna og hótaði henni lífláti ef hún færi af heimilinu.

Hann er ákærður fyrir að hafa neitað henni um aðstoð þegar hún var fótbrotin og að hafa nokkrum sinnum hótað að drepa hana með því að gefa henni of mikið insúlín með fjarstýringu sem stýrir inngjöf, en hún er sykursjúk og að hafa læst hana inni þegar hún var lág í sykri þannig að hún óttaðist um líf sitt.

Einnig er hann ákærður fyrir að hafa hótað konunni að lesa öll gögn um hana í sjúkraskrá með þeim afleiðingum að hún óttaðist að greina heilbrigðisstarfsfólki frá andlegu og líkamlegu ofbeldi hans.

Þá segir í ákærunni að maðurinn hafi þvingað konuna til húsverka og barið hana í andlitið með banana og þvingað hana til að borða maís af eldhúsgólfi á heimili þeirra.

Maðurinn er ennfremur ákærður fyrir að hafa beitt þrjú börn þeirra ofbeldi, ógnað lífi þeirra og velferð og misboðið þeim með ruddalegu og ósiðlegu athæfi, eins og það er orðað í ákærunni. Þess er krafist að sá ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir