Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

5400 skjálftar á Reykjanesskaga

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Nokkuð stöðug skjálftavirkni hefur verið á Reykjanesskaga síðustu viku. Virkni er við Þorbjörn, austan Sýlingarfells sem er norðan Grindavíkur, við Kleifarvatn og við Sandfellshæð sem er mitt á milli Reykjanestáar og Bláa lónsins. Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir að ekkert bendi þó til þess að kvika sé að fara að leita upp á yfirborðið. Það sem af er ári hafa verið 5400 skjálftar á Reykjanesskaga.

Sigríður segir að vísbendingar séu um kvikusöfnun á talsverðu dýpi eða sextán kílómetra og dýpra. Það sé orðið svipað og var áður en eldgos hófst í mars í fyrra. Sigríður segir að ekkert bendi til annars en að kvikan sé á þessu dýpi og ekki komin nær yfirborði. Þetta sýna GPS-mælingar og INSAR-gervitunglamyndir. 

Þá sé ekkert hægt að segja til um það sprunga opni, fari svo að eldgos hefjist á ný á Reykjanesskaga í bráð. „Við fylgjumst með eins og haukar,“ segir Sigríður. Hún segir sjaldgæft að fólk hringi á Veðurstofuna þessa dagana til að segja að það hafi fundið fyrir skjálftum. 

Það sem af er ári hafa verið 5400 skjálftar og 11 þeirra hafa verið að stærð 3 eða stærri.