Tyrknesk stjórnvöld ætla að byggja íbúðir og nauðsynlega innviði í Sýrlandi í von um að geta hvatt milljón sýrlenskra flóttamanna til þess að flytja aftur heim. Recep Tayyip Erdogan forseti tilkynnti þetta í dag.
Alls eru nú um þrjár komma sex milljónir sýrlenskra flóttamanna í Tyrklandi, fólk sem flúði borgarastyrjöldina sem geisað hefur í landinu frá því 2011.
Erdogan hefur sætt aukinni gagnrýni heima fyrir síðustu vikur og mánuði vegna veru flóttafólksins í Tyrklandi. Þessi nýju áform þykja til þess fallin að lægja öldurnar og bregðast við gagnrýninni enda þing- og forsetakosningar á næsta ári, segir í umfjöllun AFP.
Í myndbandsávarpi sagði Erdogan að stjórnvöld undirbyggju að senda sýrlenska bræður sína og systur aftur heim og að unnið yrði með alþjóðasamfélaginu, stofnunum og samtökum að uppbyggingunni.
Um hálf milljón Sýrlendinga hefur flutt aftur til heimalandsins, á svæði nærri landamærunum sem Tyrklandsstjórn telur öruggt, frá árinu 2016. Nú stendur til að byggja fleiri íbúðir þar, skóla og sjúkrahús. Áformað er að byggja hundrað þúsund íbúðir fyrir lok þessa árs.