Tíminn og natnin

Mynd:  / 

Tíminn og natnin

01.05.2022 - 12:51

Höfundar

„Þú munt aldrei nokkurn tímann hafa nógan tíma til þess að skrifa. Það sem eftir er áttu eftir að þurfa að stela augnablikum og andartökum frá fjölskyldu og vinnuveitendum til að fá næði til að setjast niður og skrifa.“ 

Björn Halldórsson skrifar:

Við hjónin vorum með húsfund um daginn og ég notaði tækifærið og spurði nágrannana hvort slögin í afaklukkunni okkar væru nokkuð að valda þeim ónæði. Þau hváðu og sögðust ekkert hafa orðið vör við þau, og mér var létt að heyra að það væri ekki hljóðbærara en svo. Viku seinna stoppaði nágranni minn mig á stigaganginum og sagði: „Það er svo skrítið, ég heyrði ekkert í klukkunni ykkar þar til þú spurðir okkur um hana, en núna heyri ég alltaf í henni.“ Ég fór með einhverjar afsakanir og bölvaði sjálfum mér í hljóði fyrir að hafa minnst á klukkuna yfir höfuð. Ég hefði átt að vita betur. Því þannig er það með tímann: þegar þú byrjar loksins að veita honum athygli sleppurðu ekki svo auðveldlega frá honum aftur. 

Í rauninni er rangnefni að kalla þessa klukku afaklukku, þar sem ég fékk hana úr dánarbúi ömmu minnar. Ömmuklukkan slær einu sinni á hálfa tímanum, og á heila tímanum slær hún frá einu og upp í tólf slög. Oft má heyra það á slögunum hvort tími sé kominn til að trekkja hana upp, þegar þau eru orðin hæg og silaleg, og maður bíður í ofvæni eftir því hvort hún orki að telja upp í tólf. Þegar hún er nýupptrekt eru slögin hinsvegar full fjörug fyrst um sinn, og það fer minna fyrir hátíðleikanum. Mér hefur tekist að halda ömmuklukkunni sæmilega réttri, en hún á það þó til að fara út af sporinu. Það gerist einkum ef maður hefur ekki sinnt henni sem skyldi og láðst að trekkja hana upp. Allt í einu áttar maður sig á að lága tifið sem greina má í öllum herbergjum íbúðarinnar er þagnað, og sér að pendúllinn hefur staðnæmst. 

Til að koma klukkunni aftur af stað þarf ekki annað en að trekkja hana upp og stugga við pendúlnum, sem umsvifalaust hefur gang sinn að nýju, en eftir það tekur við nokkurra daga ferli við að stilla hana aftur. Það er gert með því að snúa litlu hjóli neðst á pendúlnum sem færir hann upp eða niður millimetra í senn til að hraða eða hægja á gangverkinu. Ömmuklukkan helst aldrei fullkomlega rétt til lengdar, en með natni má halda henni innan sæmilegra skekkjumarka. Ég hef heyrt það hjá mörgum að tilhugsunin um að vera með stanslaust tif inni á heimilinu sé þeirra versta martröð, en ég get vottað það að maður venst því furðufljótt. Innan skamms heyrir maður tifið ekki nema örsjaldan, þegar maður stendur sig að því að vera einn með hugsanir sínar um stund. Þegar það gerist undirstrikar lágvært tifið þögnina og kyrrðina á heimilinu; þessi sjaldgæfu augnablik þegar manni gefst færi á að finna fyrir tímanum sem líður. 

„[H]eima var hvorki klukka né úr,“ segir Steinþór Þórðarson, bróðir Þórbergs Þórðarsonar, í endurminningu um sína fyrstu kaupstaðarferð, þar sem hann falaðist eftir að kaupa húsklukku fyrir gamla bæinn á Hala. Hann heldur áfram: „Það, sem helzt var hægt að átta sig á, þegar sól sá ekki, var sjöstjarnan, þegar hún sást, eða kýrnar, þegar þær fóru að baula eftir gjöfum eða mjöltum. En ekkert af þessu var óbrigult.“ Þar sem mjaltir voru aldrei hluti af heimilisverkum mínum sem strákur er ég ekki viss um hvenær það var sem ég byrjaði sjálfur að taka eftir tímanum. Framan af sjá fullorðnir um slíkar áhyggjur fyrir mann. Mínar vangaveltur um tímann einskorðuðust við háttatímann minn og hvenær teiknimyndirnar byrjuðu á laugardagsmorgnum – í þá daga þegar við vorum enn rígbundin við línulega dagskrá. 

Þegar ég fékk mitt fyrsta armbandsúr, ljósblátt Swatch-úr úr plasti með vísum sem lýstu í myrkri og ól sem mig svitnaði undan, gekk ég með það á hægri hendi, sem mér þótti lógískt þar sem ég var rétthentur. Ég hefði heldur kosið stafrænt úr. Vísarnir rugluðu mig til að byrja með, og það voru engir tölustafir á skífunni, en ég gekk með bláa Swatch-úrið þar til það hætti að virka og þá fékk ég annað í staðinn. Mér skildist á foreldrum mínum að úr væri bara eitthvað sem þú þurftir að ganga með, ekki ósvipað húslyklinum sem hékk í ól um hálsinn á mér. Líkt og húslykillinn var úrið tákn um bæði fríðindi og ábyrgð; lykillinn gerði mér kleift að vera einn heima eftir skóla, og úrið veitti mér rétt til að fara út að leika eftir kvöldmat – með því skilyrði að ég fylgdist með klukkunni og kæmi heim á skikkanlegum tíma. En við lok gagnfræðaskóla var mér afhent ennþá meiri ábyrgð: blágrænn Nokia 5110 farsími, gamli vinnusími föður míns. Síminn var með kubbslegu loftneti sem gerði hann óþægilegan í vasa og batteríi sem dugði að hlaða einu sinni í viku. (Hvílíkur munaður, hugsa ég núna, þegar ég eyði góðum tíma á degi hverjum í leit að símahleðslutæki.) Nokia-síminn bauð upp á lítið meira en að hringja og senda smáskilaboð, fyrir utan auðvitað ótaldar ánægjustundir við að spila snake, en á skjámyndinni var klukka, og innan skamms hætti ég að sjá tilganginn í því að ganga með armbandsúr. Ég festi ekki slíkt aftur á úlnliðinn – þann vinstri, í þetta sinn – fyrr en mörgum árum seinna, þegar ég fór í fyrsta sinn að hugsa um tímann sem annað og meira en eitthvað sem maður þurfti að eyða. 

„Ég hef minni þolinmæði fyrir manni sem gengur ekki með úr en nokkrum öðrum, því slíkur maður er ekki meðvitaður um tímann. Farsæld allra okkar okkar verka byggir á því að bera virðingu fyrir tíma okkar og meta hann að verðleikum.“ Svo mælti Malcolm X, maður sem hugsaði meira um tímann en margur. Hann vissi að fyrir honum lægi risavaxið verkefni og grunaði eflaust að honum myndi ekki endast ævin til að koma því í framkvæmd. Þótt mitt eigið, litla verkefni í lífinu jafnist á engan hátt við það sem hann setti sér, þá voru það samt þessi orð sem urðu til þess að ég fór aftur að ganga með úr, og stillti það meira að segja til að titra einu sinni á klukkustund; stanslaus áminning um hvort ég væri að verja tíma mínum vel. Þessi ofsafengna reglusemi hljómar hálf hjákátleg fyrir mér í dag. Ég hugsa að hún hafi verið afsprengi strákslegs óöryggisins sem ég fann fyrir þegar ég heyrði aðra höfunda tala um hvernig þau hefðu skrifað alla ævi; hefðu byrjað ung að skrifa sögur og ljóð fyrir foreldra sína og vini og verið skrifandi alla tíð síðan. Þetta fólk hlýtur ungt að hafa orðið meðvitað um tímann, hugsaði ég. Sjálfur skrifaði ég ekki staf utan skóla fyrr en eftir tvítugt, og fór ekki að sinna því af neinni alvöru fyrr en að nálgast þrítugt. 

Mér kemur til hugar orð bandaríska rithöfundarins Ann Patchett, sem í ritgerð um ferlið að baki sinni fyrstu bók segir: „Ég sá hvílíkt snilldarráð það hafði verið að hafa ekki helgað mig skrifum að fullu fyrr en núna. Það hafði bjargað mér frá því að þurfa að horfast í augu við hversu fær höfundur ég var – eða var ekki.“ Eftir að ég fór að skrifa af alvöru komst ég nefnilega skjótt að staðreynd sem flestir höfundar átta sig á fyrr en síðar: Þú munt aldrei nokkurn tímann hafa nógan tíma til þess að skrifa. Það sem eftir er áttu eftir að þurfa að stela augnablikum og andartökum frá fjölskyldu og vinnuveitendum til að fá næði til að setjast niður og skrifa. 

Því að þótt það séu fáar afþreyingar sem eru ódýrari í framkvæmd en að skrifa – þú þarft ekki annað en blað og penna – er það hinsvegar ótrúlega kostnaðarsamt hvað varðar tíma og athygli; tvær auðlindir sem við virðumst aldrei eiga nóg af í dag. Því til að skrifa vel þarftu fyrst að skrifa illa, og það getur tekið mörg ár. Ég öfundaði höfunda sem höfðu skrifað frá barnæsku, það að hafa nú þegar rutt öllum sínu slæmu skrifum frá á unga aldri, og fannst ég vera langt á eftir þeim – finnst það í raun ennþá. Því enn í dag sest ég oft og tíðum niður til að skrifa illa, í þeirri von að þannig takist mér á endanum að skrifa vel. Og hvort tveggja tekur sinn tíma. 

Tengdar fréttir

Pistlar

Karlar sem lesa ekki konur

Pistlar

Tilfinningar á torgum samfélagsmiðla