Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hrina hryðjuverka skyggir á ramadan

01.05.2022 - 06:47
epaselect epa09917096 People who were injured leave the scene of the bomb blast in Kabul, Afghanistan, 29 April 2022. According to police, at least ten people were killed and dozens more injured in a bombing attack on a mosque during prayers, the attack came amid a wave of strikes on Afghan religious sites and civilian targets during the holy month of Ramadan.  EPA-EFE/STRINGER
Menn sem voru í moskunni í Kabúl þegar sprengja sprakk þar á föstudag arka af vettvangi Mynd: EPA-EFE - EPA
Í Afganistan hefur röð mannskæðra sprengjuárása varpað skugga á seinni helming hins helga föstumánaðar ramadan, sem lýkur í dag. Íslamska ríkið hefur lýst nokkrum þeirra á hendur sér en öðrum ekki.

Sjálfsmorðssprengjuárásum og öðrum mannskæðum hryðjuverkum hefur fækkað talsvert í Afganistan síðan talibanar tóku við stjórnartaumunum og hættu að fremja þau. Undanfarnar tvær vikur hafa þó allmargar sprengjuárásir spillt þeirri kyrrð, friði og íhugun sem ramadan gengur út á.

Mannskæðar árásir í Mazar-i-Sharif og Kabúl

Á fimmtudag fórust minnst níu manns og á annan tug særðust þegar tvær sprengjur sprungu í vegkanti í borginni Mazar-i-Sharif með nokkurra mínútna millibili.

Íslamska ríkið lýsti þeirri árás á hendur sér, og líka samskonar árás á strætisvagn í Kabúl í gær, laugardag. Ein kona í vagninum fórst og þrennt særðist.

Enginn hefur hins vegar lýst sig ábyrgan fyrir sprengingu sem varð minnst tíu að bana í miðjum föstudagsbænum í fjölsóttri mosku í Kabúl á föstudag. Tugir særðust í þeirri sprengingu og óstaðfestar fregnir herma að mun fleiri hafi látið lífið.

Milljónir rafmagnslausar á Eid al-Fitr

Þá sprengdu óþekktir tilræðismenn tvö rafmagnsmöstur á laugardag með þeim afleiðingum að milljónir Afgana í ellefu héruðum Afganistans eru því án rafmagns í dag, þegar Eid al-Fitr hátíðin gengur í garð. Hún markar endalok ramadan og tilheyrandi föstu og er tveggja daga hátíð samveru, samhygðar og örlætis. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV