Hitabylgja og rafmagnsleysi hrella Indverja

01.05.2022 - 08:21
Erlent · Hamfarir · Náttúra · Asía · hitabylgja · Indland · Kol · rafmagnsleysi · Umhverfismál
epa09913908  A view of heat haze occurring on the surface of a road near New Delhi, India, 28 April 2022. According to the India Meteorological Department (IMD), Delhi and National Capital Region's temperature is expected to exceed 43 degrees Celsius amid a heat wave.  EPA-EFE/HARISH TYAGI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ekki sér fyrir endann á skæðri hitabylgju sem geisað hefur á nánast öllu Indlandi síðustu daga. Hiti hefur farið yfir 45 gráður víða í landinu dag eftir dag að undanförnu og fór mest í 47,4 gráður í borginni Banda í Uttar Pradesh-ríki á föstudag. Nýliðinn marsmánuður var sá heitasti í 122 ára sögu veðurmælinga á Indlandi og nú hefur verið staðfest að nýlliðinn aprílmánuður er líka sá heitasti sem mælst hefur í veðurmælingasögunni.

Kolaskortur eykur á vandann

Skortur á kolum veldur því að rafmagn hefur farið af stórum svæðum um lengri og skemmri tíma, sem hefur bæði valdið vatnsskorti og óbærilegum hita hvar sem fólk hefur treyst á loftkælingu innan dyra. Indversku járnbrautirnar gripu til þess ráðs um helgina að aflýsa yfir 750 ferðum farþegalesta til að greiða leið kolaflutningalesta, um leið og kolaframleiðsla og -innflutningur voru aukin eins og kostur var.

Indverjar fá um 75 prósent raforku sinnar úr kolaorkuverum, sem aftur brenna um 75 prósentum af þeim milljarði tonna af kolum, sem Indverjar nota ár ári hverju, segir í frétt Al Jazeera. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV