Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fylgjast vel með kvikusöfnun austan við Fagradalsfjall

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Mælingar náttúruvársérfræðinga hjá Veðurstofu Íslands, sýna kvikusöfnun á um 16 kílómetra dýpi austan við Fagradalsfjall. Engar landbreytingar benda þó til þess að kvikan sé að nálgast yfirborðið.

Það sem af er þessu ári hafa um 5400 skjálftar mælst á Reykjanesskaga. Skjálftavirknin hefur verið mest á svæðunum við Reykjanestá, Fagradalsfjall, Kleifarvatn og norður af Grindavík. Skjálftavirknin er þó talsvert minni en hún var í upphafi óróatímabilsins á Reykjanesskaga, sem hófst í desember 2019.

Benedikt Ófeigsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir skjálftana ýmist geta stafað af flekahreyfingum eða kvikuhreyfingum, en oft sé erfitt að greina þar á milli. Því þurfa þau að vakta svæðið sérstaklega vel.

„Líklega erum við að horfa á kvikusöfnun á kvikugeyminum sem fæddi eldgosið í upphafi“ sagði Benedikt.

Hvernig sjáið þið fyrir ykkur þetta gæti þróast?

„Sko, við erum ansi viss um að þarna er kvika að safnast fyrir. Ef það heldur áfram má búast við að það gerist eitthvað svipað og í Fagradalsfjalli, annað hvort eldgos eða innskot eins og var um áramótin. En hvort það kemur aftur á sömu slóðir eða færir sig á einhver önnur eldgosakerfi á Reykanesinu. Það er í rauninni engin leið á spá fyrir um“ segir Benedikt. „Svo getur þetta náttúrulega verið ferli sem tekur marga áratugi. Það er bara eins og venjulega, mjög erfitt að sjá fyrir sér hvernig þetta þróast.“