Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ekki sjálfgefið að eiga frjálsa verkalýðshreyfingu

Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
Göngufólk í kröfugöngu dagsins segir tíma til kominn að samstaða ríki innan verkalýðshreyfingarinnar. Gott sé að geta loks gengið fylktu liði á baráttudegi verkalýðsins eftir tveggja ára hlé.

„Núna verðum við að horfa fram á veginn og rífast um samninga. Það er kominn tími til,“ sagði Magnús Freyr Magnússon sem gekk með félögum sínum í Eflingu.

Þarf meiri samstöðu í verkalýðshreyfingunni?

„Við vonum bara að hún sé komin og það verði samstaða núna um að berjast sérstaklega fyrir réttindum láglaunafólks.“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, óskaði landsmönnum til hamingju með dagnn.

„Loksins fáum við að mæta aftur í kröfugöngu eftir tveggja ára hlé. Við hlökkum mikið til. Yfirskrift dagsins í dag er: fólkið vinnur. Þannig að það endurspeglar það að það er fólkið sem skapar verðmætin og sömuleiðis að við vinnum saman stóru sigrana.“

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Frá Austurvelli í dag.

Forseti ASÍ ítrekaði mikilvægi samstöðu

Drífa Snædal, forseti ASÍ, kom víða við í ræðu sinni á Ingólfstorgi að kröfugöngu lokinni. Gerði hún meðal annars að umtalsefni bankasölu ríkisins, misskiptingu fjár og mikilvægi sterkrar samstöðu innan verkalýðshreyfingarinnar. 

„Við sem erum kjörin til forystu höfum skyldum að gegna gagnvart félögum, vinnandi fólki og almenningi öllum og við þurfum að standa saman um það sem samstaða er um og hún er víðtæk. Við eigum við að gera það með virðingu fyrir vinnandi fólki alls staðar, mennsku og staðfestu.“

Þá ræddi Drífa ástandið í Úkraínu og Rússlandi.

„Í ófriði vex fasismi og í síðustu viku voru verkalýðsleiðtogar í Hvíta-Rússlandi fangelsaðir og eigur þeirra gerðar upptækar. Það að eiga frjálsa og óháða verkalýðshreyfingu er sannarlega ekki sjálfgefið og okkur ber skylda til að verja hana og  styðja félaga okkar í öðrum löndum sem geta ekki varið sig sjálfir. Gleðilegan baráttudag verkalýðsins,“ sagði Drífa.

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, hélt einnig ræðu á fundinum. Brot úr henni og svipmyndir frá deginum má sjá í spilaranum hér að ofan.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV