Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Seðlar, sól, sjálfstraust og sveitaböll á Suðurlandi

Mynd: Skjáskot / RÚV

Seðlar, sól, sjálfstraust og sveitaböll á Suðurlandi

29.04.2022 - 12:30

Höfundar

Ballþyrst poppáhugafólk ætti að fá eitthvað fyrir sinn snúð í Undiröldu kvöldsins sem keyrir helgina í gang með sumarslögurum sem fjalla um allt frá seðlum og sjálfstrausti til sólar og sveitaballa á Suðurlandi. Með nýtt eru Emmsjé Gauti og herra Hnetusmjör, Vök, Stjórnin, Ari Árelíus, Karitas Harpa, Eyjaa-systur og Slagarasveitin.

Emmsjé Gauti, herra Hnetusmjör - Hálfa milljón

Síðastliðinn föstudag sendu rappararnir hressu Emmsjé Gauti og herra Hnetusmjör lagið Hálfa milljón sem þeir vilja meina að verði samloka sumarsins. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þeir bræður vinna saman en lagið Þetta má kom út fyrir nokkrum árum síðan og hefur gert það gott síðan.


Vök - Miss Confidence

Tríóið Vök hefur verið duglegt að senda frá sér lög á árinu og það nýjasta frá þeim er poppdiskólagið Miss Confidence eða fröken Sjálfstraust. Lagið er eins og lög þeirra Lose Control, Stadium og fleiri að finna á þröngskífu þeirra Feeding On a Tragedy, sem nálgast það óðum að verða breiðskífa.


Ari Árelíus - Sól

Ari Árelíus gaf út lagið Sól á sumardaginn fyrsta en lagið er það fyrsta sem heyrist af Hiatus Terræ, væntanlegri plötu Ara sem kemur út í sumar. Á plötunni væntanlegu segir Ari að verði að finna fimmundasöng, harmonikku, hawaii-gítar, framandi ryþma og sérstaka rafmagnaða útgáfu af hinu hefðbundna fornhljóðfæri langspili sem hann kallar rafspil.


Stjórnin - Í skýjunum

Slagarasveitin Stjórnin lætur ekki sitt eftir liggja í endurvinnslunni og sendir frá sér nýja útgáfu af þremur lögum sínum sem eitt lag sem þau kjósa að kalla Í skýjunum. Lagið unnu þau Sigga og Grétar í samstarfi við hljóðgervlagrúskarana Mána Svavars og Pálma Ragnar Ásgeirsson sem eru sjaldan fjöltengislausir þegar kemur að rafpoppi.


Eyjaa - Big feelings

Nýjasta lag Eyjaa-systra er flutt af þeim Brynju Mary Og Söru Victoriu Dagmar Sverrisdætrum sem gera út frá gamla landinu. Flestir ættu að þekkja lag þeirra Ultraviolet sem hefur verið á vinsældalista Rásar 2 í nokkrar vikur.


Slagarasveitin - Einn dagur X Ein nótt

Slagarasveitin hefur gefið út diskólagið Einn dagur X Ein nótt sem verður að finna á væntanlegri hljómplötu sveitarinnar. Slagarasveitin hefur lagt sig fram um að vinna með fjölbreytni í tónsmíðum sínum og fær að þessu sinni til liðs við sig söngkonuna Ástrós Kristjánsdóttur.


Karitas - Horft til baka

Karitas hefur sent frá sér nostalgíuslagarann Horft til baka sem fjallar um sveitaballamenninguna á Suðurlandi í kringum 1970 þegar hljómsveitir eins og Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar og Mánar voru bestar á balli frá Hveragerði og upp í Þjórsárver.


Aldís Fjóla - Brenndu brýr

Tónlistarkonan Aldís Fjóla gaf út sína fyrstu plötu, Shadows, árið 2020 og er nú að vinna að sinni annarri plötu með Stefáni Erni Gunnlaugssyni. Lagið Brenndu brýr er fyrsta lagið sem kemur út af henni en það voru Stefán Örn og Aldís Fjóla sem sömdu lagið en textinn var í höndum Sævars Sigurgeirssonar og Aldísar Fjólu.