Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Milli himins og jarðar

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Vilberg

Milli himins og jarðar

29.04.2022 - 09:22

Höfundar

Upside Down & Everywhere In Between er fyrsta sólóplata Einars Vilberg. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Einar Vilberg hefur lengi verið hluti af rokksenu Íslands, þekktastur fyrir störf sín í rokksveitinni Noise en auk þess rekur hann hljóðverið Hljóðverk og hefur tekið upp kynstrin öll af tónlist þar. Þessi plata er þannig upp sett að fjögur laganna eru sungin, „eðlileg“ söngvaskáldalög, en þar á milli eru ósungnar stemmur sem strengjasveit leikur (og sveitin kemur og við sögu í sungnu lögunum). Sveitin atarna hefur m.a. tekið upp fyrir Mark Lanegan og Eddie Vedder og kallast The Red Limo Quartet. Einar semur lög og texta á plötunni ásamt að syngja og leika á gítar, bassa, trommur og píanó. Hann upptökustýrði jafnframt, hljóðritaði, hljóðblandaði og hljómjafnaði í eigin hljóðveri. Valdimar Kristjónsson lék á píanó í nokkrum lögum og bróðir Einars, Stefán, lék á bassa í einu lagi.

Platan hefst með „Sleepless“, rokkballöðu eiginlega sunginni af þessari löngunarfullu, sterku rödd hans. Tónbrigðin og stíllinn á mikið undir Seattle-senunni, enda var það hún sem mótaði Einar upphaflega og sveit þeirra bræðra, Noise, sniðin að skapalóni þeirra tíma. Það er klassískur bragur yfir, nánast gotneskur, og samspil gítars og píanós vel heppnað. Við tekur svo strengjaópusinn „Hollow (Part. 1)“, nánast í beinu framhaldi stemningslega. Ákefðin vex eftir miðbikið og við erum leidd inn í „Eventually“ sem hefst með kröftugum kassagítarstrokum. Söngvaskáldastillingin fylgir þessu lagi sem er vel samið og flutt. Einar er með gamla lagasmíðataug í sér, setur saman lög sem hefðu gengið fullkomlega upp á bandarískri trúbadúraplötu frá áttunda áratugnum t.d. Hann þekkir þennan sígilda heim rokk og róls inn og út mætti segja. Það sem gefur plötunni nokk einstakan blæ, lyftir henni upp, eru þessi klassísku, ósungnu innskot. Vigtin í plötunni verður óhjákvæmilega meiri og allt verður einhvern veginn tilkomumeira. „So long“ tekur strengina með sér, hugljúf ballaða hvar þeir og gítarar flögra um á meðan Einar syngur lægra og meira inn í sig. „Hollow (Part. 2)“ brúar okkur svo inn í „Apathy - acoustic“. Þar rykkir Einar rækilega í söngröddina, leyfir sér að öskra hálfpartinn og hellir þannig úr hjartanu. Lagið er í svipuðum gír, þess til að gera, og restin. „Outro“ er svo fallegt eftirspil, eins og nafnið ber með sér. Einar er í söngvaskáldaham út í gegn en alltaf skal hann samt standa á þeim trausta rokkpalli sem hann sté upp á í fyrndinni. Er það vel.

Þetta er „hjartaplata“, plata sem Einar hefur gengið með í maganum lengi vel og ástæða til að óska honum til hamingju með að hafa komið henni loksins á koppinn. Heildarmyndin er heiðarleg og ber ástríðufullum tónlistarmanni, sem á enga aðra köllun en tónlistina, fagurt vitni.