Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Telur öryggi íbúa ógnað vegna læknaleysis

Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - RÚV
Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands segir heilbrigðisþjónustu á Þórshöfn góða þrátt fyrir að enginn læknir sé  í bænum. Sveitarstjóri Langanesbyggðar er á öndverðum meiði og segir mikilvægt öryggismál fyrir íbúa að hafa þar lækni.

Næsti læknir í 70 kílómetra fjarlægð

Enginn læknir er búsettur á Þórshöfn á Langanesi og hefur ekki verið í mörg ár. Sveitarstjórn Langaness hefur sett fram bókun um mikilvægi þess að hafa lækni með fasta búsetu í bænum. Næsti læknir er á Kópaskeri eða í sjötíu kílómetra fjarlægð. Jónas Egilsson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, leggur áherslu á að sveitarfélagið búi yfir góðu bakvaktakerfi hjúkrungarfræðinga og sé með gott lið viðbragðsaðila. Það sé þó slæmt að enginn læknir sé með aðsetur á Þórshöfn.

„Það er enginn læknir á Þórshöfn og hefur ekki verið lengi. Það finnst okkur vera krítískt, sérstaklega á veturna þegar að færð er eins og menn þekkja hérna á Íslandi. Þar af leiðandi sé öryggi íbúa ekki tryggt eins og best verður á kosið,“ segir Jónas.

Andlát barns vakti sterk viðbrögð 

Í mars lést tveggja ára barn á Þórshöfn eftir að hafa fengið Covid-19 en læknirinn á Kópaskeri sendi hjúkrunarfræðing til að líta á barnið. Það mál er nú til skoðunar hjá Landlækni. Jónas segir það mál hafa vakið sterk viðbrögð en vandamál vegna læknaskorts séu ekki ný af nálinni.

Sveitarstjórnin átti fund með forstjóra HSN í síðustu viku og segist Jónas ekki hafa fengið fullnægjandi skýringar á læknaleysinu. Hann stefnir á að eiga fund með heilbrigðisráðherra á næstu vikum vegna stöðunnar.

Segir heilbrigðisþjónustu þrátt fyrir allt góða

Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN, segir lækninn sem búsettur er á Kópaskeri sinna Raufarhöfn, Þórshöfn og Kópaskeri ásamt dreifbýlinu og ekki sé hægt að skipta sér af hvar hann kjósi að búa.

Er ekki alveg skiljanlegt að fólki líði óöruggu að hafa ekki betri heilbrigðisþjónustu en þetta?

„Ég held reyndar að heilbrigðisþjónusta á svæðinu sé mjög góð. Það sé tiltölulega sterk hjúkrunarmönnun á svæðinu og öflugir læknar. Nei, ég skil samt í kjölfar svona atviks að fólk sé eitthvað hugsi,“ segir Jón Helgi.