Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Milljónum Kaliforníubúa sagt að spara vatnið

28.04.2022 - 02:41
FILE - A small stream runs through the dried, cracked earth of a former wetland near Tulelake, Calif., on June 9, 2021.  Southern California's gigantic water supplier has taken the unprecedented step of requiring some 6 million people to cut their outdoor watering to one day a week as drought continues to plague the state. (AP Photo/Nathan Howard, File)
Lítil lækjarspræna rennur þar sem áður var víðáttumikið votlendi nærri Tulevatni í Kaliforníu Mynd: AP
Miklir og langvarandi þurrkar undanfarinna ára hafa leitt til þess að ein stærsta vatnsveita Bandaríkjanna, Metropolitan-vatnsveita Suður-Kaliforníu, hefur lýst yfir neyðarástandi vegna vatnsskorts og hvetur um sex milljónir notenda til að draga verulega úr vatnsnotkun sinni. Í erindi vatnsveitunnar til viðskiptavina sinna eru þeir meðal annars beðnir um að takmarka vatnsnotkun utandyra - til bílþvotta, vökvunar, sunds og svo framvegis - við einn dag í viku.

Margir þurrir vetur og enn þurrari sumur eru að baki í Kaliforníu, þar sem einstaka steypiregn með tilheyrandi flóðum megna hvorki að fylla á náttúruleg vatnsból né manngerð uppistöðulón. Vatnsveitan krefst þess af nokkrum borgum og bæjum og vatnsveitum þeirra að innleiða vatnssparandi reglur og aðgerðir fyrir fyrsta júní og framfylgja þeim af einurð, en borga háar sektir ella.

„Við höfum ekki nægar vatnsbirgðir til að mæta venjulegri þörf notenda. Vatnið er einfaldlega ekki til staðar,“ hefur AP-fréttastofan eftir Rebeccu Kimitch, svæðisstjóri Metropolitan-vatnsveitunnar. „Þetta er fordæmalaus uppákoma. Við höfum aldrei þurft að gera neitt þessu líkt áður.“