Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Barnaflóð í Urriðaholti kom meirihlutanum á óvart

Mynd: Bjarni Rúnars / RÚV
Íbúasamsetning í nýjum hverfum í Garðabæ komu meirihluta bæjarstjórnar í bænum á óvart. Leikskólapláss er ekki í boði í Urriðaholti þar sem fleira barnafólk hefur fest rætur en skipulag gerði ráð fyrir.

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í bænum segir að það hafi komið á óvart hversu margir fluttu í hverfið með ung börn á leikskólaaldri. Margt gott hafi þó verið gert í leikskólamálum á síðasta kjörtímabili. Talsmenn annarra framboða vilja auka framboð félagslegs og almenns húsnæðis og bæta frístundaþjónustu við börn yfir sumartímann. 

Nokkur íbúafjölgun hefur orðið í Garðabæ undanfarið. Garðbæingum fjölgaði um tæp fimm prósent á milli ára og eru nú um 18.500 íbúar búsettir þar, sem gerir Garðabæ að sjötta fjölmennasta sveitarfélagi landsins. 
Urriðaholtshverfið hefur byggst upp á undanförnum árum. Í upphafi var gert ráð fyrir að eldra fólk yrði uppistaðan í samfélaginu þar, en raunin hefur orðið önnur. Barnafólk hefur flutt í hverfið í stórum stíl. Fyrirheit hafa verið uppi um að börn séu tekin inn á leikskóla við 12 mánaða aldur í sveitarfélaginu, en það hefur ekki gengið eftir.

Sofandaháttur Sjálfstæðisflokksins

Sara Dögg Svanhildardóttir, oddviti Viðreisnar í bænum segir að vaxtarverkir bæjarins hafi komið niður á leikskólaþjónustu.
„Ímyndin hefur verið þessi að í Garðabæ er öllum tryggt leikskólapláss við 12 mánaða aldur og hefur verið það nokkuð lengi. Það sem gerist núna á vakt Sjálfstæðisflokksins er að á þessu kjörtímabili, eftir að Garðabær vex með þessum hraða sem felur í sér vaxtarverki að þá hefur verið svolítill sofandaháttur yfir því hvað er að gerast í Urriðaholtinu. Áformin þar voru um byggð fyrir miklu eldra fólk. Síðan snýst það við og í Urriðaholtið flytur miklu yngra fólk með mikið af leikskólabörnum. Þar eru leikskólabörn um 17 prósent íbúa. Vandinn er gríðarlegur. Við erum að sjá fram á það að fólk er að sitja eftir sem býr í Urriðaholti og þurfa að fara bæinn þveran og endilangan með börnin sín í leikskóla, mögulega starfandi í Urriðaholtinu sjálft, þannig að þetta er ekki beint umhverfisvænt eins og Urriðaholt vill gefa sig út fyrir að vera, vistvænt hverfi. Við höfum verið að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn, þau settu ekki forgang fjármagns í leikskólamál og brugðust of seint við,“ segir Sara Dögg.

Vill stytta nám leikskólakennara

Lárus Guðmundsson oddviti Miðflokksins í Garðabæ vill að leitað verði leiða til að stytta nám leikskólakennara til að fá fleiri til starfa.
„Það sem er knýjandi er einfaldlega að það sé tryggt að leikskólakennarar séu til staðar. Mér finnst rosalega skrýtið að námið sé 5 ár. Sveitarfélagið á að taka þetta samtal og ráða ráðum sínum til að þrýsta á ríkið til að fjölga leikskólakennurum. Hækka launin.“ segir Lárus.

Ekki auðvelt að sjá þetta fyrir 

Almar Guðmundsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins segir að það sé erfitt að sjá fyrir sér raunútkomu íbúasamsetningar þegar hverfi eru skipulögð, og nefnir þar Sjálandshverfi og Ásahverfi þar sem þróunin reyndist þveröfug.
„Varðandi Urriðaholtið, þá ætla ég að segja já, það kom okkur á óvart þó að við séum í sjálfu sér mjög stolt að fá allt þetta góða barnafólk í bæinn okkar. En þessi 17 prósent tala sem hér er nefnd, það er mjög erfitt að finna hverfi á Íslandi sem hefur fengið þessa tölfræði og ójafnvægið sem við erum að horfa á varðandi leikskólabörn á móti grunnskólabörnum. Það er svo stórt hlutfall  af börnum í hverfinu leikskólabörn. Það er vissulega rétt að við hefðum getað farið fyrr af stað, og ég gengst bara við því. Þegar fólk stjórnar, þá verður það líka að mæta þeim aðstæðum sem það lendir í,“ segir Almar.
Bendir hann á að nýr leikskóli sé væntanlegur í Urriðaholti þar sem pláss verður fyrir 200 börn.

Greinileg vöntun á leikskólakennurum

Brynja Dan Gunnarsdóttir, oddviti Framsóknarflokks vill sjá leikskólann gjaldfrjálsan í skrefum.
„Það er vöntun á starfskröftum. Það er bara þannig út um allt. Við myndum vilja sjá það að gera leikskólann að lögbundinni þjónustu og í skrefum gera hann gjaldfrjálsan. Byrja á 4-5 ára. Það yrði faglegt starf hluta dags og frístund annan hluta dags sem yrði tekið gjald fyrir. Við værum til í að skoða það í samvinnu við ráðherra að lengja fæðingarorlofið úr 12 í 15 mánuði til að brúa bilið enn betur og eins að ef fólk kemst ekki með börn á leikskóla strax að það væri heimastyrkur sem það fengi á meðan,“ segir Brynja. 

Garðabær á að taka forystu í leikskólamálum á ný

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, oddviti Garðabæjarlistans tekur undir með Söru Dögg um að Garðabær eigi að taka forystu í leikskólamálum og bæta aðstæður leikskólakennara svo að þeir flykkist ekki yfir á grunnskólastigið, líkt og hefur gerst eftir að eitt leyfisbréf var gefið út fyrir bæði skólastig. 
„Nú er fyrirhuguð uppbygging á Álftanesi. Við þurfum að passa upp á að þetta endurtaki sig ekki þar,“ segir Þorbjörg.

Framboðsþátt með oddvitum flokka í Garðabæ má sjá hér að ofan.