Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Segir mikilvægt fyrir Íslendinga að kortleggja víðerni

27.04.2022 - 12:51
Mynd: RÚV / RÚV
Vísindamenn hafa kortlagt óbyggð víðerni Íslands og útkoman er opin almenningi. Alls voru 55.400 ferkílómetrar miðhálendis skilgreindir á korti auk þriggja svæða utan þess. Víðerni eru fágæt auðlind, segir doktor við Leeds-háskóla. 

Steve Carver, doktor í landfræði við Háskólann í Leeds og forstöðumaður Wildland Research Institute, hefur ásamt föruneyti íslenskra vísindamanna og nema við Leeds-háskóla kortlagt íslensk víðerni.

„Við erum að reyna að kortleggja miðhálendi Íslands og notum við það alþjóðlegar aðferðir, sem þróaðar hafa verið annars staðar; í Kína, Norður-Ameríku og í Evrópu, svo að við getum reynt að vernda vænleg óspillt svæði á Íslandi,“ segir Carver í samtali við Kastljós.

Í skýrslu hópsins er gerð grein fyrir nákvæmustu kortlagningu á óbyggðum víðernum á miðhálendi Íslands sem fram hefur farið. Kortlagningin byggist á náttúruverndarlögum nr. 60/2013 og skilgreiningu þeirra á óbyggðum víðernum.

Nærri helmingur miðhálendisins fellur undir skilgreiningu um óbyggð víðerni og skiptast þau upp í 17 afmörkuð svæði. Þriðjungur þess svæðis sem kom út í kortlagningunni reyndist vera utan þjóðlendna, það er í einkaeigu.

Sérstaklega verðmætt fyrir Íslendinga

Carver segir mjög mikilvægt fyrir Íslendinga að geta með skýru móti greint á milli víðerna og þess sem ekki er skilgreint sem víðerni, til þess að geta betur verndað þá fágætu auðlind sem víðerni sannarlega eru. Hann segir að eftir því sem hlutdeild víðerna á heimskortinu minnkar, þeim mun verðmætari verða víðerni Íslands. 

„Það er til áhugaverð tölfræði, unnin upp úr Evrópukortunum, þar sem fram kemur að á Íslandi séu um 43 prósent af helstu ósnertu víðernum Evrópu. Sé litið til markmiða um líffræðilegan fjölbreytileika eftir 2020, þá er í efsta sæti að vernda óspilltu svæðin sem eftir eru. Þess vegna þarf að kortleggja þau. Þegar dregin hefur verið lína á kort má setja það í samhengi við lög; í íslensk lög um náttúruvernd svo að hægt sé að taka ákvarðanir um hvar megi byggja, hvað megi leggja rafmagnslínur og hvar megi byggja vatnsaflsvirkjanir svo að að spilli ekki þessari mikilvægu auðlind.“

Tilfinningalegt virði náttúrunnar skrásett

Carver segir að kortlagning víðerna sé ekki aðeins mikilvæg fyrir íslenskan lagabálk, heldur einnig fyrir skynjun og upplifun Íslendinga af þeirri auðlind sem hérlend víðerni eru. Þannig segir hann að kortlagningin sé einnig kortlagning á fjárhagslegu og tilfinningalegu virði íslenskrar náttúru.

„Skoða má óbyggðir út frá tveimur þáttum; annar er vistfræðilegi þátturinn, líffræðilegur fjölbreytileiki. Þarna er náttúran ósnert af inngripi mannsins, landnotkun, mannvirkjum, grunnstoðum o.s.frv. Hinn er svo skynjun okkar á landslaginu, hve ósnert við upplifum það. Þetta seinna atriði er afar mikilvægt fyrir íslenskan ferðaiðnað, því margt fólk kemur til Íslands, hvaðanæva að, til þess að sjá og skynja fegurð landslagsins.“

Áhugasamir geta kynnt sér efni skýrslunnar hér og á síðunni Óbyggð kortlagning. 

gudrunsoley's picture
Guðrún Sóley Gestsdóttir
dagskrárgerðarmaður
oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV