Misjafnlega strangar reglur um starfslok vegna aldurs

27.04.2022 - 10:54
Flugumferðarstjóri á vakt í flugturni
 Mynd: RÚV
Mjög misjafnt er hvenær fólki er gert að láta af störfum hjá opinberum hlutafélögum í eigu ríkisins. Flugumferðarstjórar verða að hætta störfum 63 ára en sums staðar eru engar reglur um hámarksaldur.

Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Isavia gerir harðastar kröfur um að fólk hætti störfum vegna aldurs. Þar fær enginn að starfa lengur en til næstu mánaðamóta eftir að 67 ára aldri er náð. Flugumferðarstjórar verða að hætta 63 ára.

RARIK, Ríkisútvarpið og Orkubú Vestfjarða miða við að starfsfólk hætti störfum þegar það nær sjötugsaldri. Orkubú Vestfjarða getur þó ráðið starfsfólk í tímavinnu í allt að eitt ár eftir að það er orðið sjötugt. Engar reglur eru um hámarksaldur starfsfólks hjá Íslandspósti, Matís, Neyðarlínunni og Nýja Landspítalanum. 

Isavia breytti reglum um hámarksaldur fyrir tveimur árum og hefur síðan miðað við 67 ára hámarksaldur. Síðustu fjögur ár hafa 45 starfsmenn á aldrinum 67 til 72 ára látið af störfum þar vegna aldurs. Níu var sagt upp hjá Orkubúi Vestfjarða á sama tíma, þeim yngsta sjötugum en elsta 84 ára, og átján létu af störfum hjá Ríkisútvarpinu. 

Fjármálaráðherra segir í svari sínu að til standi að undirbúa ráðstafanir á kjörtímabilinu til að eldra fólk geti verið virkir þátttakendur á vinnumarkaði, meðal annars með auknum sveigjanleika í starfslokum.
 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV