Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Hundrað þúsund bóluefnaskammtar fluttir aftur úr landi

27.04.2022 - 18:40
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Um tíu prósent allra bóluefna sem flutt voru til landsins vegna COVID-19 hafa verið flutt aftur úr landi. Yfir tvö þúsund bóluefnaskammtar hafa fyrnst í geymslu hjá innflytjanda.

Bóluefnið sent til Taílands

Um hundrað þúsund skammtar af bóluefni gegn COVID-19 hafa verið fluttir frá Íslandi til Taílands. Það eru um tíu prósent af öllu bóluefni sem flutt hafði verið hingað til lands frá upphafi faraldursins, en hingað hafa komið um milljón skammtar af bóluefni. 

Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica sem flytur inn COVID-19 bóluefni hingað til lands, segir að þeim hafi borist um tíu þúsund skammtar af bóluefni í hverjum mánuði undanfarið. Það eru töluvert færri skammtar en bárust til dæmis á síðasta ári þegar bólusetningar stóðu sem hæst.

Tvö þúsund skammtar runnið út hjá innflytjanda

Framkvæmdastjóri Distica segir að í þessum mánuði hafi runnið út um tvö þúsund skammtar af bóluefni frá framleiðandanum Moderna.

„Við höfum ekki fargað neinu bóluefni og það hefur ekkert runnið út af bóluefnum fyrr en bara rétt núna undanfarna daga. Núna í apríl hafa 2000 skammtar fyrnst sem við höfum haft í geymslu hér, svo það er algerlega óverulegt,“ segir Júlía.

Þegar þú segir þeir hafi fyrnst, þá eru þeir væntanlega ónothæfir og þarf að farga þeim er það ekki? „Jú, þeir eru semsagt útrunnir,“ segir Júlía.