Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Félagsmenn Eflingar funda um umdeilda hópuppsögn

Mynd með færslu
 Mynd: Andri Yrkill Valsson - RÚV
Félagsmenn Eflingar halda til fundar með stjórn félagsins í kvöld. Þá verða ræddar skipulagsbreytingar innan skrifstofu stéttarfélagsins og umdeild hópuppsögn allra starfsmanna.

Hátt í 500 félagsmenn kröfðust fundarins

Félagsfundur Eflingar stéttarfélags verður haldinn í Valsheimilinu á Hlíðarenda í Reykjavík kl. 18 í kvöld. Stjórnin boðaði til fundarins eftir að hátt í 500 félagsmenn kröfðust þess, vegna skipulagsbreytinga á skrifstofu félagsins.

Starfsfólk á skrifstofu Eflingar hefur gagnrýnt stjórn félagsins harðlega, fyrir að segja upp öllum starfsmönnum þess. Formaður Eflingar segir hópuppsögn hafa verið nauðsynlegan lið í skipulagsbreytingum á skrifstofunni. Formenn annarra stéttarfélaga hafa fordæmt ákvörðunina sem á sér engin fordæmi innan verkalýðshreyfingarinnar.

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Gabríel Benjamín, trúnaðarmaður starfsmanna Eflingar hjá VR.

„Legg allt mitt traust á félagsfólk“

Gabríel Benjamín, trúnaðarmaður starfsmanna Eflingar hjá VR, segist vona að félagsmenn biðji stjórn félagsins að afturkalla hópuppsögnina. Það sé varhugarvert fordæmi að verkalýðsfélag beiti einu hættulegasta vopni vinnumarkaðarins gegn sínu eigin fólki, að öllu starfsfólki sé sagt upp í skjóli skipulagsbreytinga.

„Orðræða formannsins hefur snúist mikið um hvað allt sé vel skipulagt og gangi eftir áætlun. En öllum sem er litið inn á skrifstofuna sjá að það er ekki raunin,“ segir Gabríel og bendir á að félagið veiti skerta þjónustu vegna fámennis á skrifstofunni.

Spyr hve miklu félagsfólk vilji fórna „fyrir ekki neitt“

Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari í stjórn Eflingar, tjáði sig um félagsfundinn á Facebook í dag. Þar spyr hún hversu miklu félagið sé tilbúið að fórna, fyrir óljósan eða engan árangur.

„Við fáum ekki hærri laun þó laun starfsfólks á skrifstofunni lækki.“  „Það sem gerist er að Efling sem vinnuveitandi hefur sett það fordæmi að hópuppsagnir vegna skipulagsbreytinga séu í lagi.“

Hægt er að lesa færslu Ólafar Helgu í heild hér fyrir neðan.