Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Blóðtaka hefur ekki neikvæð áhrif á heilsu segir MAST

27.04.2022 - 16:00
Mynd með færslu
 Mynd: Hulda G. Geirsdóttir - RÚV
Matvælastofnun telur engar vísbendingar um að blóðmagn sem tekið er úr blóðmerum sé of mikið. Ekki komi fram neikvæð áhrif á skilgreinda mælikvarða og heilsu og blóðbúskap hryssnanna .Þetta kemur fram í skýrslu sem birt var á vef MAST í dag.

Alvarleg frávik við meðferð mera sem sáumst í myndbandi erlendra dýraverndarsamtakanna kalla þó á viðbrögð að dómi Matvælastofnunar og viðbætur við skilyrði um starfsemina. Tilefni sé til aukins eftirlits MAST með blóðtökunni.

Hundrað og nítján bú af tæplega 2340 búum eru með hestahald til blóðtöku samkvæmt skýrslu Matvælastofnunar. Alvarleg frávik  komu fram á  rúmlega tíu prósentum búa síðustu fimm ár af ýmsum sökum. 

Í sérstöku átaki á síðasta ári var farið á 782 bæi í eftirlit.
Fimm lítrar blóðs eru teknir vikulega allt að átta sinnum úr hryssum í blóðstóðum. Mat MAST er að blóðtaka fylfullra hryssna eins og hún er framkvæmd hérlendis stangist ekki á við lög. Rannsóknir sýni ekki áhrif á heilsufar meranna.
 
Ekki hafa komið upp alvarleg frávik við eftirlit með blóðmerahaldi á síðasta ári samkvæmt skýrslunni.
Blóðtöku hryssna hefur verið hætt á átta bæjum síðustu fimm ár vegna alvarlegra frávika við fóðrun og aðbúnað blóðtökuhryssna. Því til viðbótar ákváðu þrír til viðbótar að hætta þessum rekstri  eftir athugasemdir 2017, 2019 og 2020.

Alvarleg frávik eiga oftast við um vanfóðrun hrossa eða hrossahópa, sjúk hross eða vanhirt segir Í skýrslu MAST. Einnig að offita og efnaskiptaraskanir séu eitt helsta dýravelferðarmál samtímans. Krónísk hófsperra geti leitt af því.  Einnig sé meira um að gömul hross séu ekki felld í tíma.  

Aðbúnaður hrossa hefur almennt batnað samkvæmt úttekt MAST en langvarandi innistaða hrossa sé þáttur sem reyni æ meira á. 
 

 

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV