Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ásakanir ganga á víxl vegna sprenginga í Moldóvu

epa09910274 President of Moldova Maia Sandu speaks during briefing at the presidential palace in Chisinau, Moldova, 26 April 2022. President Sandu spoke about the strained situation in Transnistria, a breakaway region of Moldova, with possible escalation and said that Moldova continues to search just on peaceful political solutions, based on dialogue and negotiation, to restore peace and stability in the region.  EPA-EFE/DUMITRU DORU
Maia Sandu, forseti Moldóvu Mynd: EPA-EFE - EPA
Ásakanir ganga á víxl milli stjórnvalda í Úkraínu og Rússlandi vegna sprenginga í Transnistríu, litlu sjálfstjórnarhéraði rússneskumælandi aðskilnaðarsinna í Moldóvu, tvær nætur í röð. Þjóðaröryggisráð Moldóvu hefur verið kallað saman vegna þessa.

Fregnir bárust af því í gær að handsprengjum hefði verið varpað á skotmörk í Transnistríu og í nótt bárust enn fréttir af sprengingum á þeim slóðum. Rússar hafa sakað Úkraínumenn um að hafa verið að verki en í Kænugarði halda menn því fram að Rússar séu að búa sér til átyllu til að ráðast inn í Moldóvu.

Vilja ekki að Transistría „dragist inn í“ stríðið

Aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, Andrey Rudenko, lýsti í gær áhyggjum vegna sprenginganna í Transnistríu og sagði stjórnvöld í Moskvu „áfram um að forðast atburðarás“ sem gæti leitt til þess að Transnistría dragist inn í hernaðarátökin. 

Transnistría liggur að suðvesturlandamærum Úkraínu. Rússar hafa verið með hersveitir í héraðinu allt frá falli Sovétríkjanna snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Þeir segja tilganginn helstan að vernda rússneskumælandi íbúana fyrir yfirgangi og kúgun.

Sömu sögu var að segja í Luhansk- og Donetskhéruðunum í austurhluta Úkraínu í aðdraganda innrásarinnar í febrúar. Þar hafa rússneskir aðskilnaðarsinnar hafa ráðið lögum og lofum í skjóli Rússa allt frá innlimun Krímskagans árið 2014.

Ógn við Moldóvu 

Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti segir markmið Rússa augljóst: Þeir vilji með þessu skapa glundroða og ótta og hóta Moldóvum. „Þeir vilja sýna að ef Moldóva styður Úkraínu, þá verði gripið til ákveðinna aðgerða,“ sagði Zelensky í daglegu ávarpi sínu í gærkvöld.

Maia Sandu, forseti Moldóvu, kallaði þjóðaröryggisráð landsins saman til fundar vegna atburða síðustu tveggja daga. Hún hvetur íbúa til að halda ró sinni og segir ákveðna hópa sjá sér hag í því að auka á spennu og sundrungu í héraðinu.

Leiðtogi Transnistríu, Vadim Krasnoselsky, sakar hins vegar Úkraínumenn um að bera ábyrgð á því sem hann kallar hryðjuverk síðustu daga. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV