Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

25 Úkraínumenn komnir með atvinnuleyfi

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Vinnumálastofnun hefur gefið út 25 leyfi til fólks frá Úkraínu sem sótt hefur um alþjóðlega vernd hér á landi. Forstjórinn segir að fyrirspurnum fjölgi og líklegt sé að spár um minnkandi atvinnuleysi milli mánaða gangi eftir. Horfurnar á vinnumarkaði í sumar eru góðar.

Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar segir að það gangi vel að útvega flóttafólki frá Úkraínu atvinnu. Hún segir að atvinnurekendur hafi tekið vel í auglýsingu stofnunarinnar sem birt var í fjölmiðlum fyrir nokkrum vikum. „Við fengum inn fjölda starfa og fjölda stöðugilda og allskonar störf, mest á höfuðborgarsvæðinu en líka úti á landi. Þannig að atvinnurekendur eru opnir fyrir þessu fólki".  Þér sýnist kannski að allir þeir sem vilja komist í vinnu?  „Mér sýnist það en við skulum átta okkur á að það eru ekki allir  tilbúnir í vinnu. Þarna eru konur með börn sem geta ekki auðveldlega farið í gæslu og svo er fólk mismunandi á sig  komið andlega eftir þessar hörmunar.  Okkur hefur gengið vel að útvega þeim störf sem eru tilbúnir". 

 Veistu fjölda þeirra sem þegar eru komnir í vinnu?   „Við eru að minnsta kosti búin að gefa út 25 atvinnuleyfi til Úkraínumanna og erum með í kringum 10 á borðinu hjá  okkur. Vð finnum aukinn þunga með hverjum deginum sem líður". Það er ekki mikið flækjustig fyrir þá að komast á vinnumarkaðinn?  "Þeir eiga auðvelt með að komast út á vinnumarkaðinn það er ekki mikið flækjustig í þessu. Við förum yfir launatölurnar hvort allt sé samkvæmt því sem á að vera  samkvæmt kjarasamningum og öðru og við veitum atvinnuleyfið yfir borðið".

Unnur segir að þetta eigi einnig við um flóttamenn frá öðrum löndum sem óska eftir alþjóðlegri vernd.  "Það fólk sem komið er með dvalarleyfi á rétt á að komast á vinnumarkaðinn á Íslandi".  Hvað með atvinnuleysi er það að minnka? "Já okkur sýnist að okkar spár gangi eftir að atvinnuleysi muni minnka á milli mánaða. Ég er bara ekki komin með staðfestar tölur ennþá". Horfurnar eru góðar?  "Horfunar eru góðar á vinnumarkaði, mjög góðar", segir Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar. 

Arnar Björnsson