Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Segir blóðmerahald hafa verið ólöglegt síðan 2020

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - RÚV
Björn M. Sigurjónsson, lektor við Dania-háskólann í Randers á Jótlandi, segir blóðmerahald hafa verið stundað á Íslandi í bága við lög undanfarin tvö ár. Síðasta fjögurra ára blóðtökuleyfi Ísteka segir hann hafa runnið út árið 2020.

Blóðtakan sé því óleyfileg frá þeim tíma en Björn furðar sig á að Matvælastofnun hafi leyft blóðmerahald frá 2020. Hann segir þó að virða megi stofnuninni til vorkunnar hve oft lög og reglur um dýravernd og hestahald hafa breyst á öldinni.

Þetta kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins í dag en Björn segir skýrt að nýjar reglur og lög geri ekki ráð fyrir blóðtöku og þannig sé hún sjálfkrafa óheimil. Bannað sé að gera tilraunir eða framleiða lyf úr lifandi dýrum samkvæmt dýraverndunarlögum frá 2013.

Skýrt sé kveðið á um að ekki megi gera nema læknisfræðilegar aðgerðir á hestum, samkvæmt reglugerð sem kom út ári síðar.

Björn tekur þátt í fundi atvinnuveganefndar Alþingis í dag þar sem gestir á vegum dýraverndunarsamtaka verða til að ræða frumvarp það sem Inga Sæland formaður Flokks fólksins lagði fram um bann við blóðmerahaldi.