Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Óvíst að blóðmerabannsfrumvarp verði afgreitt í vor

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Atvinnuveganefnd Alþingis ræddi á fundi sínum í dag frumvarp Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, um bann við blóðmerahaldi. Stefán Vagn Stefánsson, formaður atvinnuveganefndar, segir málið langt frá því að vera komið á þann punkt að unnt sé að afgreiða það úr nefnd. Þá styttist í þinglok og mörg mál bíði afgreiðslu nefndarinnar. Það sé því óvíst að unnt verði að ljúka umfjöllun um blóðmerahald.

Tveir gestir komu á fund atvinnuveganefndar í morgun. Alls bárust 137 umsagnir við frumvarpið. Stefán segir að ekki standi til að fá alla sem skrifuðu umsögn á fund nefndarinnar.

Hann segir mjög skiptar skoðanir um frumvarpið.  Ekki sé víst að það vinnist tími til að afgreiða málið úr nefndinni. Það eigi líka við um fleiri mál, þar á meðal mál frá ríkisstjórn.