Sósíalistaflokkur Íslands bauð fyrst fram í borginni fyrir fjórum árum og fékk þá einn fulltrúa kjörinn, Sönnu Magdalenu Mörtudóttur. Hún leiðir lista flokksins fyrir komandi kosningar og segir forgangsverkefni að auka jöfnuð meðal borgarbúa. Húsnæðismálin vega þar þungt og Sanna segir að borgin eigi sjálf að ráðast í húsnæðisbyggingar.
„Og sú uppbygging á að vera félagsleg þar sem braskarar eru fjarlægðir úr jöfnunni og þau sem leitast við að græða á húsnæðisuppbyggingunni og ríkir verða að greiða til samfélagsins eins og launafólk með útsvari á fjármagnstekjur. Borgin verður af mörgum milljörðum á ári hverju vegna þess að útsvar er ekki lagt á fjármagnstekjur,“ segir Sanna.
Meðal stefnumála sósíalista er að efla almenningssamgöngur og Sanna segir að borgarbúar geti ekki beðið eftir lagningu Borgarlínu.
Við ætlum ekki að sætta okkur við eitthvað sem kemur einhverntímann í framtíðinni sem lausn við okkar vanda. Við þurfum lausnir núna. Við þurfum umhverfisvænt samfélag og við þurfum betri strætósamgöngur.
Þú talar um að efla strætó - snýst það þá líka um lagningu Borgarlínu? „Núna er vandamálið strætósamgöngur; það er það sem fólk vill að við gerum núna. Það er vandamálið sem við þurfum að leysa í dag og ekki bíða eftir einhverju sem kemur í framtíðinni. Við þurfum alltaf að leysa það sem er á borðinu núna.“
Telja að bætt kjör myndu stytta bið
Sósíalistar vilja gjaldfrjálsan leikskóla og telja að breytt kjör leikskólastarfsfólks myndu stytta biðlista eftir leikskólaplássi. „Það þarf að hlusta á raddir hinna lægst launuðu, bæta kjörin og bæta starfsaðstæðurnar og hlusta líka á raddir foreldra í þessum málefnum,“ segir Sanna.
Hverjum gætuð þið hugsað ykkur að vinna með? „Öllum þeim sem vilja hér vinstri-sósíalíska borg sem byggir á réttlæti, þar sem jöfnuður er áherslan.“