Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Branson biður Singapore að þyrma lífi dauðadæmds manns

epa09908338 A man holds a placard showing Malaysian national Nagaenthran K. Dharmalingam during a candlelight vigil against the death penalty at the Speakers corner in Hong Lim Park, Singapore, 25 April 2022. Nagaenthran, who was diagnosed as intellectually disabled, was sentenced to death for trafficking 42.72 grams of diamorphine (heroin) into Singapore 11 years ago. He is scheduled to be executed on 27 April 2022 in Singapore.  EPA-EFE/HOW HWEE YOUNG
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Breski auðkýfingurinn Richard Branson biður stjórnvöld í Singapore um að þyrma lífi þroskaskerts malasísks manns sem bíður aftöku. Branson segir það verða svartan blett á orðstír borgarinnar láti stjórnvöld verða af aftökunni.

Nagaenthran K. Dharmalingam var sakfelldur fyrir að hafa smyglað litlu magni heróíns til Singapore og hefur setið á dauðadeild á annan áratug.

Hann var rúmlega tvítugur þegar hann var handtekinn en stuðningsmenn hans segja greindarvísitölu hans vera 69 og að hann hafi verið þvingaður til athæfisins.

Fyrirhugað er að taka Dharmalingam af lífi á miðvikudaginn. Sú fyrirætlan hefur vakið háværa fordæmingu, meðal annars innan Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins.

Refsingin er sögð bæði grimmileg og árangurslaus sem fyrirbyggjandi aðgerð. Branson hefur lengi, í samvinnu við aðra auðmenn, barist gegn dauðarefsingum og segist í samtali við AFP-fréttaveituna vonast til að Halimah Yacob forseti Singapore veiti Dharmalingam sakaruppgjöf.

„Við biðjum hana að velta fyrir sér hvort að Singapore vilji vera þekkt fyrir það í nútímanum að hengja fólk. Þetta er bara svo ómannúðlegt,“ segir Branson. Hann bætti við að honum þætti að siðmenntuð ríki ættu ekki að stunda það að taka fólk af lífi.

Stjórnvöld í Singapore hafa réttlætt dóminn yfir Dharmalingam og sagt hann hafa vitað fullkomlega hvað hann var að gera.

Staða forseta Singapore er að mestu táknræn en þó getur hann gefið fólki upp sakir. Það væri síðasta úrræði Dharmalingam, þar sem öllum leiðum til áfrýjunar hefur verið beitt.