Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Sjálfkjörið í sveitarstjórn á Skagaströnd

Myndir teknar með dróna.
 Mynd: RÚV - Jóhannes Jónsson
Sjálfkjörið verður í komandi sveitarstjórnarkosningum á Skagaströnd þar sem aðeins einn listi er í boði, H-listi Skagastrandarlistans. Þessi sami listi var einnig sjálfkjörinn árið 2010.

Halldór Gunnar Ólafsson, efsti maður á H-lista, er núverandi oddviti sveitarstjórnar á Skagaströnd, en Skagastrandarlistinn hefur lengst af verið í meirihluta sveitarstjórnar.

Lárus Ægir Guðmundsson, formaður kjörstjórnar, segir að þegar ljóst var að aðeins einn listi hafði borist, er framboðsfrestur rann út, hafi verið gefinn tveggja sólarhringa frestur til að leggja fram annan lista. Hann barst ekki og því teljist Skagastrandarlistinn sjálfkjörinn.

Lárus segir að lengst af hafi tveir listar verið boðnir fram á Skagaströnd. Þetta sé trúlega í annað sinn í sögunni sem sjálfkjörið er í sveitarstjórn.

Leiðrétting: Þetta er ekki í annað sinn sem sjálfkjörið er í sveitarstjórn á Skagaströnd, heldur í þriðja sinn. Sjálfkjörið var áður 2002 og 2010.