Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Níkaragva segir skilið við Samtök Ameríkuríkja

epa09899263 Deputies of the National Assembly (AN) participate in an ordinary session to cancel the legal personalities of another 25 Nicaraguan NGOs, in Managua, Nicaragua, 20 April 2022. The National Assembly (Parliament) of Nicaragua, with an official majority, has canceled 137 non-profit civil organizations that have been outlawed since December 2018, at the request of the Government of President Daniel Ortega.  EPA-EFE/Jorge Torres
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Skrifstofum Samtaka Ameríkuríkja var lokað um helgina í Managua, höfuðborg Mið-Ameríkuríkisins Níkaragva. Ríkið hefur sagt skilið við samtökin að tillögu forsetans og utanríkisráðherrans.

Samtökin voru stofnuð 1948 og þar til í gær áttu 35 sjálfstæð Ameríkuríki aðild að þeim. Kúba hefur þó ekki verið með frá árinu 1962.

Ríkisstjórn Daníels Ortega forseta ákvað í nóvember að segja skilið við samtökin. Þau véfengdu endurkjör forsetans í ljósi þess að helstu andstæðingar hans voru fangelsaðir í aðdraganda kosninganna.

Denis Moncada utanríkisráðherra Níkaragva kallaði fulltrúa landsins umsvifalaust heim frá Washington, á brott frá þessum „illræmdu samtökum“, eins og hann orðaði það.

Hann tilkynnti í beinni útsendingu um lokun skrifstofu samtakanna í Managua, sem hann sagði vera djöfullegt verkfæri illskunnar.

„Frá og með deginum í dag er Níkaragva laust undan fláráðri tilhögun þessa ferlíkis, undan svokölluðu fastaráði, svokölluðum nefndum, svonefndum fundum og svokölluðum leiðtogafundum Ameríkuríkja,“ sagði Moncada.

Samkvæmt reglum samtakanna hefði brotthvarf Níkaragva úr samtökunum átt að taka tvö ár til þess að fulltrúar þess gætu lokið margvíslegum skylduverkum.