Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Miðflokkskona á þing fyrir Sjálfstæðismann

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tveir varaþingmenn taka sæti á Alþingi í dag. Annar þeirra er Erna Bjarnadóttir úr Miðflokki sem tekur sæti Birgis Þórarinssonar úr Sjálfstæðisflokki. Birgir var kosinn á þing fyrir Miðflokkinn í kosningum síðasta haust en sagði fljótlega skilið við flokkinn og gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Þar með fækkaði þingmönnum Miðflokksins úr þremur í tvö en nú verða þeir þrír um skeið.

Erna og Birgir eru í óvenjulegri stöðu þar sem þingmaður og varaþingmaður eru í sitthvorum flokknum. Það hefur þó gerst nokkrum sinnum í gegnum tíðina og nokkuð oft á síðustu árum miðað við það sem áður var. Á síðasta kjörtímabili gengu til dæmis tveir þingmenn til liðs við Miðflokkinn eftir að hafa verið kjörnir á þing fyrir Flokk fólksins. Það voru þeir Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, rak þá úr þingflokknum eftir að uppljóst varð um samdrykkju þeirra með þingmönnum Miðflokksins á Klaustur bar, samdrykkju sem varð fræg vegna ummæla sem þar voru látin falla. Eftir skamma stund utan þingflokka gengu Ólafur og Karl Gauti til liðs við Miðflokkinn. Eftir það kölluðu þeir aldrei inn varamann, sem hefði þá komið úr Flokki fólksins.

„Þetta kom mér bæði á óvart og ekki,“ segir Erna. Hún og Birgir hafa rætt saman nokkrum sinnum á árinu. Það bar hins vegar nokkuð brátt að að Erna kæmi inn á þing, því haft var samband við hana um helgina um möguleikann á að taka sæti á þingi. Það var þó ekki staðfest fyrr en morgun að af þessu yrði. „Í raun og veru vissi ég ekki fyrr en níu í morgun að af þessu yrði, þá setti ég bílinn í gang og keyrði af stað,“ segir Erna.

Hinn varaþingmaðurinn sem tekur sæti á þingi í dag er Lilja Rafney Magnúsdóttir sem kemur inn fyrir Bjarna Jónsson, þingmann Vinstri grænna.

Fréttin var uppfærð 12:52 með viðbrögðum Ernu.
 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV