Upside Down & Everywhere In Between er fyrsta sóló-stúdíóbreiðskífa Einars Vilbergs. Áður var hann í hljómsveitunum Noise og RedLine, auk þess sem hann rekur hljóðverið Hljóðverk í Reykjavík og hefur þar tekið upp ógrynni af músík í gegnum tíðina.
Það er öllu til tjaldað á þessari átta laga frumraun. Kassagítar og söngur eru í aðalhlutverki mestan part auk strengjasveitar sem annast nánast alfarið helming plötunnar. Platan er sett þannig upp að annað hvert lag er sungið, en þeirra á milli eru sinfónísk instrumental lög.
Að sögn Einars er strengjasveitin sem spilar inn á plötuna helst þekkt fyrir samstarf við Mark Lanegan (Queens of the Stone Age) og Eddie Vedder (Pearl Jam), ákveðnir rokk-turnar á ferðinni þar.
Upside Down & Everywhere In Between er Plata vikunnar á Rás 2 og verður leikin í heild sinni að loknum tíufréttum í kvöld, auk kynninga frá Einari.