
Bjartsýni gætir um flugrekstur í Færeyjum
Halli af almennum rekstri Atlantic Airways eftir skatta var tíu milljónir danskra króna í fyrra eða jafngildi tæpra 188 milljóna íslenskra króna. Hallinn var tífalt það árið 2020 eða 105 milljónir danskra króna.
Þeim fjölgaði talsvert sem keyptu sér far með flugfélaginu árið 2021 frá árinu áður eða um 52 þúsund og því horfir stjórn þess björtum augum til framtíðar.
Niels Mortensen stjórnarformaður Atlantic Airways segist sjá eftirspurnina aukast þrátt fyrir hækkandi eldsneytisverð og óvissu bæði vegna innrásar Rússa í Úkraínu og í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.
„Við teljum að dragi verulega úr áhrifum COVID-19 eftir því sem líður á árið,“ segir Mortensen sem telur að fjöldi farþega verði orðinn svipaður og fyrir faraldur, um mitt árið.
Árið 2021 flugu 201 þúsund með Atlantic Airways. Viðlíka bjartsýni gætir hjá stjórnendum alþjóðaflugvallarins en í mars fór um völlinn 83% þess farþegafjölda sem það gerði í sama mánuði árið 2019.
Regin I. Jakobsen forstjóri flugvallarins álítur að jafnmargir farþegar fari þar um og 2019. Tap á rekstri Voga-flugvallar 2021 var um 5,6 milljónir danskra króna eftir að skattar höfðu verið greiddir.