
Hús bifreiðastöðvar Oddeyrar á Akureyri, sem var reist fyrir rúmum 60 árum þarf að víkja fyrir 1. október á þessu ári vegna breytinga á deiliskipulagi. Margrét Elísabet Imsland, framkvæmdastjóri BSO segir enga lausn í sjónmáli en vonar að húsnæði finnist í miðbænum.
„Við þurfum að rífa eignina okkar á okkar kostnað þannig að við förum alltaf héðan með tapi og við erum náttúrlega ekki sátt við það.“
-Hvernig stendur á því, þið eigið þetta hús, af hverju eigið þið að gera það?
„Þegar samningar voru gerðir hérna 1960 og eitthvað, man ekki alveg hvenær. Þá var þetta gert til bráðabirgða með 6 mánaða uppsagnafresti og síðan eru liðin mörg ár og þetta eru bara skilyrðin sem Akureyrarbær setur núna, að við rífum þetta á okkar kostnað.“
-En þið viljið vera einhvers staðar hérna í miðbænum með ykkar næstu aðstöðu?
„Jú við viljum vera þar sem fólk getur haldið í sína rútínu. En drauma aðstaða er þar sem allir væru saman, strætó, utanbæjarstrætó, leigubílar og allir en við megum samt ekki vera einhvers staðar út úr bænum.“