Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Leigubílastöðin á Akureyri á hrakhólum

24.04.2022 - 09:56
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson
Leigubílstjórar á Akureyri hafa frest til 1. október til að fjarlæga hús sitt við Strandgötu sem hýst hefur starfsemina í 60 ár. Fram­kvæmda­stjóri Bifreiðastöðvar Oddeyrar segir súrt að þurfa að rífa húsið á eigin kostnað.

Hús bifreiðastöðvar Oddeyrar á Akureyri, sem var reist fyrir rúmum 60 árum þarf að víkja fyrir 1. október á þessu ári vegna breytinga á deiliskipulagi. Mar­grét Elísa­bet Imsland, fram­kvæmda­stjóri BSO segir enga lausn í sjónmáli en vonar að húsnæði finnist í miðbænum.

„Við þurfum að rífa eignina okkar á okkar kostnað þannig að við förum alltaf héðan með tapi og við erum náttúrlega ekki sátt við það.“

-Hvernig stendur á því, þið eigið þetta hús, af hverju eigið þið að gera það?

„Þegar samningar voru gerðir hérna 1960 og eitthvað, man ekki alveg hvenær. Þá var þetta gert til bráðabirgða með 6 mánaða uppsagnafresti og síðan eru liðin mörg ár og þetta eru bara skilyrðin sem Akureyrarbær setur núna, að við rífum þetta á okkar kostnað.“

-En þið viljið vera einhvers staðar hérna í miðbænum með ykkar næstu aðstöðu?

„Jú við viljum vera þar sem fólk getur haldið í sína rútínu. En drauma aðstaða er þar sem allir væru saman, strætó, utanbæjarstrætó, leigubílar og allir en við megum samt ekki vera einhvers staðar út úr bænum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson
Margrét Elísabet Imsland
odinnso's picture
Óðinn Svan Óðinsson