Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Barnið mitt var dregið inn í mjög hættulegar aðstæður“

24.04.2022 - 16:57
Mynd: Bragi Valgeirsson / Fréttir
Claudia Ashanie Wilson, móðir sextán ára pilts, sem lögregla og sérsveit höfðu afskipti af í tengslum við leit að strokufanga í vikunni er miður sín yfir að saklaust barn hennar hafi verið dregið inn í hættulegar aðstæður, eingöngu vegna húðlitar. Hún vonar að lögregla og samfélagið allt muni draga lærdóm af málinu.

Sérsveit ríkislögreglustjóra hafði fyrst afskipti af drengnum í strætisvagni í vikunni vegna leitar að tvítugum manni sem slapp úr haldi lögreglu. Mikil reiði braust út á samfélagsmiðlum enda eiga piltarnir tveir ekkert sameiginlegt, annað en að vera báðir dökkir á hörund. Aðeins einum degi síðar höfðu lögreglumenn afskipti af drengnum í annað sinn, þegar hann var í bakaríi með móður sinni.  

„Í stuttu máli var þetta algjör martröð. Saklaust barnið mitt var dregið inn í mjög hættulegar og ógnandi aðstæður, einkum vegna húðlitar. Ég hef kannski sagt þetta áður að það eru þrjú orð sem svört móðir vill aldrei heyra í sömu setningu og það er lögregla, byssur og barnið þitt,“ segir Claudia. 

Hún segist þakklát fyrir sterkt bakland fjölskyldunnar hér á landi. Það sé alls ekki sjálfgefið. „Hann er að fá nauðsynlega áfallahjálp og svo er hann svo heppinn að vera með tvær mömmur og tvo pabba og fullt af vinum og fjölskyldu sem hlúa að honum.“

Vill draga lærdóm af málinu

Claudia segist hafa upplifað mikla niðurlægingu við atvikið. Þó að áfallið sé mikið þá vilji hún frekar líta fram á veginn og leita leiða til að draga lærdóm af málinu. „Það eru alltof margar sögur um þetta, ég myndi kalla í sumum tilfellum bara tilefnislausa afskipti lögreglu af saklausum börnum af erlendum uppruna og sérstakega þeim sem eru með sýnilegan  erlendan bakgrunn, því miður. Bara það getur leitt til þess að það skapar ákveðið vantraust eða gagnvart lögreglunni sem ég held að fólk vilji.“

Sjálf er Claudia mannréttindalögfræðingur og meðeigandi á lögmannsstofunni Rétti þar sem hún segist ítrekað heyra af kynþáttamiðaðri löggæslu hér á landi, sem verði að uppræta. Lögregla hafi gert augljós mistök í þessu máli sem auki á vantraust gagnvart henni, sem sé engum til hagsbóta. „Við erum ekki að fara leysa nein vandamál með því að hunsa stóra fílinn í herberginu. Við þurfum að vinna þett saman, þetta er samfélagslegt vandamál sem við berum öll ábyrgð á.“