
Skotmaður sem særði fjóra í Washington tók eigið líf
Lögregla var með mikinn viðbúnað og lokaði Connecticut Avenue-Van Ness-hverfið af síðdegis í gær eftir að þung skothríð ómaði um hverfið.
Stuart Emerman aðstoðarlögreglustjóri segir þrennt hafa verið flutt á sjúkrahús, tveir fullorðnir með hættuleg skotsár og tólf ára stúlka sem var minna særð. Gert var að sárum eins til viðbótar á vettvangi.
Robert Contee, lögreglustjóri í Washington, greindi frá því á blaðamannafundi að sá sem grunaður hefði verið um verknaðinn væri látinn. Hann hefði svipt sig lífi þegar lögreglumenn réðust til atlögu að íbúð hans á fimmtu hæð í húsi nærri vettvangi.
Skotvopn á þrífæti, líkt og leyniskyttur notast við, fannst í íbúð mannsins auk fleiri vopna. Contee segir allt útlit fyrir að maðurinn hefði útvegað sér vopnin löglega en ekki sé enn vitað hvað honum gekk til.
Augljóst sé að hann hafi ætlað sér að valda miklum skaða. Myndskeið sem virtist tekið frá sjónarhorni skotmannsins fór í dreifingu á samfélagsmiðlum. Contee segir myndskeiðið virðast ekta en það sýnir fólk reyna að leita sér skjóls undan þungri skothríð úr sjálfvirkri vélbyssu.
Rúm vika er síðan skotárás var gerð í jarðlestakerfi New York-borgar. Þar særðust 23 en sá grunaði var handtekinn daginn eftir. Hans bíður nú ákæra byggð á hryðjuverkalöggjöf Bandaríkjanna.