
Reykjavíkurborg slítur samstarfi við Moskvu
„Við samþykktum einróma mótmæli gegn innrás Rússa í borgarstjórn á dögunum um leið og innrásin hófst. Ég hef komið þeim mótmælum á framfæri við borgarstjóra og borgarstjórn Moskvu en ekki fengið nein í viðbrögð. Í mínum huga er því alls ekkert óeðlilegt að fjalla um næstu skref í þessu," segir Dagur.
Sérstakur samningur var gerður á milli Reykjavíkurborgar og Moskvu árið 2007, í opinberri heimsókn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, þáverandi borgarstjóra. Moskva er eina rússneska borgin sem Reykjavík á í samstarfi við. Sambandinu hefur ekki verið slitið formlega en búið er að stöðva allt samstarf á grundvelli samnings borganna.
Mögulega samstarf við Lvív
Dagur átti fjarfund með borgarstjóranum í Lvív í síðustu viku. „Þar ræddum við þetta mál annars vegar. Þar kom fram sú eindregna ósk þeirra að við gengjum lengra í að slíta þessi tengsl og taka upp tengsl við Lvív í staðinn.“ Dagur segir að hann geri ráð fyrir að málið verði tekið til umfjöllunar á fundi borgarráðs í vikunni, að því gefnu að bréf frá borgarstjórninni í Lvív hafi borist.