Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Dæmd í sjö ára fangelsi fyrir að villa á sér heimildir

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Kanadísk kona var í gær dæmd til sjö ára fangelsisvistar fyrir að villa á sér heimildir og þykjast vera hjúkrunarfræðingur áratugum saman. Sömuleiðis brá hún sér í gervi fleiri sérfræðinga og notaði til þess fölsuð persónuskilríki.

Brigitte Cleroux er fimmtug og var handtekin í höfuðborginni Ottawa í ágúst. Það gerðist eftir að samstarfsmaður hugðist leggja fram kvörtun á hendur Cleroux til fagfélags hjúkrunarfræðinga.

Þá komu upp sterkar vísbendingar um að pottur væri brotinn. Cleroux viðurkenndi sekt vegna brota í sjö liðum snemma á þessu ári.

Þar á meðal fyrir að villa á sér heimildir, vopnaða árás og fyrir að gefa tuttugu sjúklingum lyf og sprautur á tannlæknastöð og frjósemismiðstöð. 

Cleroux hefur framið svipuð brot öll sín fullorðinsár, hún hefur falsað starfsferilsskrár og útbúið persónuskilríki með tugum ólíkra nafna en sakaskráin er löng.

Hún lét sig yfirleitt hverfa eftir að upp komst um sviksemina. Dómarinn Robert Wadden segir athæfi konunnar grafa illa undan því trausti sem samfélagið beri til heilbrigðiskerfisins.

Enn á eftir að reka mál gegn Brigitte Cleroux vegna þess að hún lét í heilt ár sem væri hún hjúkrunarfræðingur við sjúkrahús í Bresku-Kólumbíu.

Nokkrir sjúklingar hafa einnig höfðað mál gegn heilbrigðisyfirvöldum þar fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að kanna hæfi Cleroux áður en hún var ráðin til starfa sem hjúkrunarfræðingur.