Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Bátur með 60 innanborðs sökk undan strönd Líbanon

epa09905045 Greek Orthodox Christians light candles with the Holy Fire at Saint George Greek Orthodox Cathedral in downtown Beirut, Lebanon, 23 April 2022. Orthodox Christian believers mark the Holy Week of Easter in celebration of the crucifixion and resurrection of Jesus Christ. The Eastern Orthodox world celebrates Easter Day according to the old Julian calendar.  EPA-EFE/WAEL HAMZEH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bátur með sextíu farandverkamenn innanborðs sökk undan ströndum Líbanons í dag. Lík eins barns er fundið en 45 hefur verið bjargað á lífi. Atvikið varð skammt frá borginni Trípólí norðanvert í landinu.

Ali Hamie flutningamálaráðherra Líbanons greindi frá þessu og upplýsti að leit stæði enn yfir. Líbanski Rauði krossinn er með mikinn viðbúnað og sendi meðal annars tíu sjúkrabíla til Trípólí.

Herinn hefur lokað hafnarsvæðinu af og hleypir eingöngu inn björgunarliði og sjúkrabílum. Aðstandendum fólksins sem var um borð í bátnum hefur verið meinaður aðgangur að hafnarsvæðinu. 

AFP-fréttaveitan hefur eftir aðstandanda á vettvangi að hann telji að kenna megi ríkisstjórninni um. „Þetta gerðist vegna þess að stjórnmálamenn þvinga atvinnulaust fólk til að yfirgefa landið.“ sagði hann. 

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir næstum sextán hundruð manns hafi reynt eða tekist að komast ólöglega á brott frá Líbanon fyrstu ellefu mánuði ársins 2021.

Af þeim eru 186 Líbanir en langflestir eru sýrlenskir flóttamenn sem ætla sér að komast inn í ríki Evrópusambandsins gegnum Kýpur. Allt frá árinu 2019 hefur sigið mjög á ógæfuhliðina í efnahag Líbanon og nú er svo komið að yfir meirihluti 60 milljóna landsmanna býr við fátækt.

Gengi gjaldmiðils landsins hefur fallið um 90 af hundraði og Alþjóðabankinn segir kreppuna vera á borð við afleiðingar langtíma stríðsátaka.