Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vilja meiri- og minnihluta í bæjarstjórn á Akureyri

Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Meiri- og minnihluti verða aftur teknir upp í bæjarstjórn Akureyrar ef marka má áherslur oddvita framboðanna í bæjarstjórnarkosningunum þar. Í umræðum á framboðsfundi RÚV á Akureyri lýstu fæstir oddvitanna sig fylgjandi því að öll bæjarstjórn ynni áfram sem ein heild að verkefnum.

Afnámu meiri- og minnihluta á miðju kjörtímabili

Í kjölfar síðustu sveitarstjórnarkosninga mynduðu L-listi Bæjarlistans, S-listi Samfylkingar og B-listi Framsóknarflokks, meirihluta í bæjarstjórn. Í nóvember 2020 var hinsvegar ákveðið að afnema minni- og meirihluta í bæjarstjórn. Bæjarstjórn hefur síðan þá unnið í sameiningu að rekstri sveitarfélagsins. Akureyrarbær er fjölmennasta sveitarfélagið utan höfuðborgarsvæðisins með hátt í 20 þúsund íbúa.

Núverandi form ekki reynst vel

Oddvitar framboðanna á Akureyri lýstu flestir þeirri skoðun að ekki væri árangursríkt að starfa áfram með óbreyttum hætti í bæjarstjórn. Hlynur Jóhannsson, oddviti M-lista Miðflokksins, segist hafa verið hlynntur þessu fyrirkomulagi þegar það var tekið upp, en það hafi ekki virkað sem skyldi þegar á leið. Hann vilji því meiri- og minnihluta á ný.

Heildarsamstarf komi ekki til greina

Hrafndís Bára Einarsdóttir, oddviti P-lista Pírata, segir að í framboði til bæjarstjórnar séu listar sem Píratar hafi ekki áhuga á að stafa með, á meðan grunnstefna flokksins sé að starfa gegn spillingu. Því komi heildarsamstarf í bæjarstjórn ekki til greina.

Reiðubúin til að skoða báða kosti

Hilda Jana Gísladóttir, oddviti S-lista Samfylkingar, telur að samstjórn hafi að mörgu leyti gengið mjög vel, þrátt fyrir að bæjarstjórn hafi nokkrum sinnum klofnað í afstöðu til málefna. Það sé að mörgu leyti lýðræðislegt að vinna saman með þessum hætti. Hún sé því reiðubúin að skoða báða kosti.

Samstjórn ekki fyrsta val

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, oddviti V-lista Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs, segir að samstjórn sé ekki sitt fyrsta val. Stærsti gallinn á því formi sé að umræðan skili sér ekki út í samfélagið og upplýsingagjöf til íbúanna sé minni en þegar formið sé meiri- og minnihluti. Hún myndi því kjósa að starfa í meirihluta gefist þess kostur.

Bæjarbúar vilji meiri- og minnihluta

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti B-lista Framsóknarflokks, segir að núverandi form í bæjarstjórn hafi komið niður á nefndarstarfi. Fólk í nefndum hafi ekki verið nógu vel upplýst og ákvarðanir hafi verið teknar einhliða í bæjarstjórn. Þá segist hún heyra á bæjarbúum að þeir vilji ekki þetta form áfram.

Hugnast best hreinn meiri- og minnihluti

Heimir Örn Árnason, oddviti D-lista Sjálfstæðisflokks, segir að fulltrúum listans hugnist best að það sé hreinn meiri- og minnihluti í bæjarstjórn. Hann sé mikill talsmaður þess að vinna málin hratt, það sé oft hægagangur í bæjarstjórn og í samstarfi eins og tíðkast hafi vinnist málin enn hægar og erfiðara sé að taka ákvarðanir.

Ánægður með núverandi form

Brynjólfur Ingvarsson, oddviti F-lista Flokks fólksins, segist í aðalatriðum vera ánægður með núverandi form. Þó alltaf megi bæta sig og gera betur. Hann hafi hins vegar ekki sett sig nógu vel inn í málið til að taka skýra afstöðu.

Megi ekki tipla á tánum til að hafa alla góða 

Snorri Ásmundsson, oddviti K-lista Kattaframboðs, segir að þetta sé spurningin um það að þeir vinni saman sem geti unnið saman. Það megi aldrei vera nein meðvirkni og allir tipli á tánum gagnvart málefnunum til að hafa alla góða. 

Samstarf með þessum hætti hafi gengið vel

Gunnar Líndal Sigurðsson, oddviti L-lista Bæjarlista Akureyrar, segir það gleymast í umræðunni að ákvörðun um samstjórn hafi verið tekin á óvissutímum í covid-faraldri og þurft hafi fleiri hendur að borðinu til að taka erfiðar ákvarðanir. Samstarfið með þessum hætti hafi gengið vel. Hins vegar sýnist honum á umræðunni á fundinum að samstjórn sé ekki í boði og listinn setji sig ekki upp á móti meiri- eða minnihlutasamstarfi.