Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Rússar leggja ótímabundið ferðabann á tugi manna

epa09901669 Vice President Kamala Harris speaks with doctors, nurses, doulas and healthcare professionals during a tour of the University of California Medical Center in San Francisco, California, USA, 21 April 2022. Harris visited the EMBRACE program of prenatal and postnatal care for black women.  EPA-EFE/TERRY SCHMITT / POOL
 Mynd: EPA-EFE - UPI POOL
Rússnesk stjórnvöld tilkynntu í dag ótímabundið ferðabann til Rússlands sem nær til tuga Bandaríkjamanna og Kanadamanna. Meðal þeirra sem óheimilt verður að heimsækja Rússland eru Kamala Harris varaforseti Bandaríkjanna og Mark Zuckerberg forstjóri fyrirtækisins Meta, sem meðal annars heldur úti samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram.

Ástæða ferðabannsins er að sögn utanríkisráðherra Rússlands þær harðneskjulegu viðskiptahömlur sem vestræn ríki beita.

Á þessum nýja lista eru 29 Bandaríkjamenn og 61 Kanadamaður. Listinn nær yfir embættismenn varnarmála, framáfólk í viðskiptum og blaðamenn frá báðum ríkjunum. 

Ráðuneytið sagði að allt það fólk sem nafngreint er bæri ábyrgð á þeirri Rússaandúð sem greina má í stjórnarstefnu ríkjanna tveggja. The Guardian hefur eftir Ned Price, talsmanni bandaríska utanríkisráðuneytisins, að honum þyki heiður að vera á skrá Rússa yfir óvelkomið fólk.

„Mér þykir mikil viðurkenning felast í því að hafa vakið bræði ríkisstjórnar sem lýgur að sínu eigin fólki, beitir nágranna sína ofbeldi og ætlar að skapa heim þar sem frelsinu er stökkt á flótta,“ sagði Price við blaðamenn.

Aðspurður hvort hann hefði orðið að leggja ferðaáætlanir til Rússlands á hilluna svaraði hann að bragði að engar ætti hann rúblurnar og jafnvel þótt svo hefði verið væru þær verðlausar orðnar.

John Kirby, talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins, og Kathleen Hicks aðstoðarvarnarmálaráðherra geta ekki farið til Rússlands á næstunni né heldur Cameron Ahmad samskiptastjóri Justins Trudeaus forsætisráðherra Kanada svo dæmi séu tekin.