Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Örsmá handskrifuð ljóðabók föl fyrir rúma milljón dala

epa09901742 A miniature book of poems made by 13-year-old Charlotte Bronte, to go on sale next month for 1.25 million US dollars, is on display at the 62nd Annual New York International Antiquarian Book Fair in New York, New York, USA, 21 April 2022.  EPA-EFE/SARAH YENESEL
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Örsmá handskrifuð ljóðabók föl fyrir rúma milljón dala

22.04.2022 - 04:00

Höfundar

Örsmá handskrifuð bók, sem geymir ljóð eftir enska nítjándu aldar rithöfundinn Charlotte Brontë, er til sýnis í New York. Þetta er í fyrsta sinn sem bókin kemur fyrir sjónir almennings í meira en öld.

Handritið er fimmtán blaðsíður, smærra um sig en meðal mannspil og inniheldur tíu óútgefin ljóð eftir Brontë. Hún var þrettán ára þegar handritið varð til.

Charlotte Brontë fæddist 1816 og lést 1855. Hún er þekktust fyrir skáldsöguna Jane Eyre sem er ein sú frægasta meðal enskra bókmenntaverka. Handritið ber ártalið 1829 og er talið það síðasta af rúmlega tuttugu slíkum eftir Brontë sem enn er í einkaeigu.

Þessi tiltekna bók var keypt fyrir 520 bandaríkjadali á uppboði í New York árið 1916. Nú kemur hún aftur fyrir sjónir almennings og býðst til kaups á alþjóðlegri fornbókahátíð i New York fyrir minnst 1,25 milljónir dala.

Hátíðin hófst í gær og stendur fram á sunnudag. Elizabeth Gaskell reit ævisögu Charlotte Brontë sem kom út 1857 og þar er þessarar litlu bókar getið en ljóð úr henni hafa aldrei verið gefin út.

Brontë-systur, Charlotte, Emily og Anne, ólust upp í Jórvíkurskíri á Englandi við nokkra einangrun og dunduðu sér við að segja og skrifa sögur. Þegar þær uxu úr grasi skrifuðu þær skáldsögur, iðulega undir karlkyns dulnefnum.

Emily skrifaði meðal annars Fýkur yfir hæðir eða Wuthering Heights og þekkasta verk Önnu er The Tenant of Wildfell Hall.

Fjölskylda Charlotte varðveitti smáhandritin hennar fram á tíunda áratug 19. aldar en eftir það komust þau í hendur breskra og bandarískra safnara. Meira en öld síðar vekja þau enn áhuga og seljast fyrir háar fjárhæðir.  

Tengdar fréttir

Menningarefni

Verk Kjarvals fjórfaldast í verði og selst á metverði

Norður Ameríka

Níu kílóa og hundrað milljóna gullmoli

Erlent

Vopn úr eigu Napóleons seld á uppboði komandi helgi

Stjórnmál

Stjórnarskrá Bandaríkjanna seld á uppboði