Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kattamálið á Akureyri úr sögunni fyrir kosningar?

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Allar líkur eru á að fallið verði frá banni við lausagöngu katta á Akureyri á næstunni. Málið verður á dagskrá bæjarstjórnar fljótlega, þar sem von er á tillögu þess efnis. Bæjarfulltrúi í röðum frambjóðenda fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á Akureyri upplýsti þetta á kosningafundi RÚV fyrr í dag.

Í nóvember samþykkti bæjarstjórn Akureyrar að banna lausagöngu katta í bænum frá 1. janúar 2025.

Umdeilt mál frá upphafi

Bæjarstjórn klofnaði í atkvæðagreiðslu um tillöguna og ákvörðunin er mjög umdeild meðal íbúa, sem segja má að hafi skipað sér í tvær fylkingar, með og á móti lausagöngu. Þá leiddi þetta af sér nýtt framboð til bæjarstjórnar - Kattaframboðið.

„Þetta verður lagt fram og þetta verður klárað“

Þetta málefni var meðal annars á dagskrá kosningafundar RÚV í Hofi á Akureyri fyrr í dag. Þar fullyrti Hlynur Jóhannsson, bæjarfulltrúi M-listans, að kattabannið yrði úr sögunni fyrir kosningar. „Ég held að málinu verði eytt fyrir kosningar. Ég held að við klárum þetta í bæjarstjórn, annað hvort á næsta fundi eða þarnæsta. Og þá þarf ekkert að tala mikil meira um þetta.“
„Ætlar þú þá að leggja þetta fram á næsta bæjarstjórnarfundi eða hvað?„
„Þetta verður lagt fram og þetta verður klárað, ég fullyrði það,“ sagði Hlynur.

Miðað við undirtektir annarra frambjóðenda á fundinum er líklegt að slík tillaga verði samþykkt.

Kosningafundur RÚV á Rás2 og kosningavefnum

Kosningafundur RÚV, með oddvitum níu framboða á Akureyri, verður á dagskrá Rásar tvö eftir fréttayfirlit klukkan sex. Þá verður fundurinn sendur út í mynd á ruv.is.