Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hin heilaga þrenning

Mynd með færslu
 Mynd: Salóme Katrín, ZAAR, RAKEL

Hin heilaga þrenning

22.04.2022 - 14:47

Höfundar

While We Wait er sjö laga plata sem ZAAR, RAKEL og Salóme Katrín standa að. Tvö lög frá hverri og svo eitt sem er unnið í sameiningu. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Deiliplatan er form sem er kunnugt, helst þá í neðanjarðartónlist, hvar hljómsveitir og/eða listamenn skipta með sér hliðum. Tvíhliða veruleiki efnislegra platna gerði ráð fyrir helmingaskiptum en á streymistímum er eðlilega hægt að víkka hugmyndina út. Og þannig er raunin með þessa útgáfu hér. „Þrjár“ hliðar og svo eitt samvinnuverkefni í bónus.

Platan hefst á titillagi sem er jafnframt sameiginlega smíðin. Virkilega vel heppnað verð ég að segja. Kraftmikið og vel unnið, mikið í gangi og samsöngurinn flottur. Það er Warpaint-andi yfir og stemningin töfrum bundin og áleitin.

Salóme Katrín ríður svo á vaðið með tvö lög. Hún vakti verðskuldaða athygli fyrir stuttskífuna Water árið 2020, sem var í senn dreymin og epísk og nöfn eins og Julia Holter, Regina Spektor og Aldous Harding flögra þar um. Lögin hérna eru öðruvísi. Það er þungur og ýlfrandi rafgítar yfir öllu finnst manni; Eivarar-áhrif í fyrra laginu og það síðara gaddavírsútgáfa af OMAM. Fyrra lagið er hvasst, „erfitt“, miskunnarlaust og sama má segja um það síðara, þó straumlínulagaðra sé. Virkilega gott.

ZAAR gaf út sjö laga plötu árið 2019 sem fór algerlega fram hjá mér á sínum tíma. Vírað, tilraunakennt svefnherbergispopp mætti segja og hér er hoggið í sama knérunn meira og minna. Lögin tvö eru myrkri bundnar rafballöður, strípaðar nokk. Fullstrípaðar mætti segja og dálítill skissubragur á þeim. Söngröddin blæs hins vegar krafti í þær.

RAKEL sendi frá sér stórfína stuttskífu í fyrra, hina fjögurra laga Nothing Ever Changes. Stæðilegasta r og b skotið popp með skandinavískum rökkurblæ. Efnilegt. Lögin hennar tvö tilheyra sama skapalóni. Það er traustur og tilkeyrður bragur yfir „When You Wake Up“, haganleg smíð í sígildum söngvaskáldagír. Viðlagið einkar gott. „Something“ er þunglamalegt, knýjandi og tilfinningaríkt.

Þetta eru þrjár ólíkar listakonur sannarlega og þannig séð lítið sem tengir þær tónlistarlega en samt má sjá þráð. Allar gera þær út frá Íslandi, eru sólólistakonur og söngvaskáld („auteurs“) og heildarblær plötunnar er þyngslalegur, ég vil líka segja sterkur, og í söng sem framvindu má nema ástríðu og einlægni. Það er ekki beðist afsökunar á neinu og plássið tekið.
Það má líka hugsa það, að hræra í heila plötu sameiginlega, opnunarlagið er það gott að tilefnið er ærið.