Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fyrrverandi forseti Hondúras framseldur

epa09901491 Former Honduran President Juan Orlando Hernandez (c) is directed to the aircraft that will take him extradited to the United States at the Hernan Acosta Air Base in Tegucigalpa, Honduras, 21 April 2022. Hernandez, accused by the United States of three charges related to drug trafficking and use of weapons, will be extradited to the US on a plane that arrived in Tegucigalpa on the same day.  EPA-EFE/Gustavo Amador
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Juan Orlando Hernandez, fyrrverandi forseti Mið-Ameríkuríkisins Hondúras, var framseldur til Bandaríkjanna í gær. Hann er sakaður um fíkniefnaviðskipti og -smygl.

Hernandez neitar allri sök. Hann var forseti Hondúras frá 2014 og þar til fyrir fáeinum vikum. Bandarísk stjórnvöld segja að forsetinn fyrrverandi eigi þátt í smygli á hundruðum tonna af kókaíni frá Kólumbíu og Venesúela til Bandaríkjanna gegnum Hondúras.

Tony Hernandez, bróðir forsetans, var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir eiturlyfjasmygl í Bandaríkjunum fyrr á árinu og til greiðslu 152 milljóna bandaríkjadala sektar. Bandarísk yfirvöld telja þá bræður samseka. 

Alla forsetatíð sína lá Hernandez undir þungum ásökunum um spillingu og kann nú að eiga yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hann sekur fundinn.

Talið er að glæpaferill forsetans nái aftur til ársins 2004 og að hann hafi hagnast um milljónir bandaríkjadala á aðstoð sinni við eiturlyfjahringi í heimalandinu, í Mexíkó og víðar.

Á forsetatíð sinni lét Hernandez sem hann styddi glímu Bandaríkjastjórnar við eiturlyfjabaróna og liðsinnti við framsal nokkurra slíkra. Bandaríkjamenn studdu endurkjör forsetans árið 2017 þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrár sem bannar það.

Eiturlyfjasalar fullyrtu við bandaríska saksóknara að Hernandez væri sjálfur flæktur í slík viðskipti og þá hófst undirbúningur að því að fá hann framseldan.

Innan við þremur vikum eftir að Hernandez vék úr embætti í kjölfar kosninga gáfu bandarísk stjórnvöld út handtökuskipun á hendur honum. Hann gaf sig sjálfviljugur fram við lögreglu 15. febrúar og hefur síðan setið í sérstöku öryggisfangelsi í höfuðborginni Tegucigalpa.