Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir enn meiri verðbólgu

Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - RÚV
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir 7,4 prósenta verðbólgu í heiminum á árinu. Spá sjóðsins hefur versnað mikið frá því í október, þegar spáð var 3,8 prósenta verðbólgu.

Frá þessu greinir Hagfræðideild Landsbankans.

Sjóðurinn spáir því að verðbólgan verði tæplega sex prósent í þróuðum ríkjum á árinu. Gangi það eftir yrði það mesta verðbólga í þeim ríkjum í tæplega fjörutíu ár. Það dragi úr einkaneyslu vegna minni kaupmáttar og áhrifin af því komi niður á hagvexti.

Á Íslandi er spáð 6,9 prósenta verðbólgu á árinu en 5,5 prósentum á næsta ári. Verðbólguspá Landsbankans hefur spáð því að verðbólgan nái hámarki í júni þegar hún verði um sjö prósent.

Hagvöxtur verður 2,3 prósent á árinu samkvæmt spánni. Það er aðeins minna en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáði í október og skýrist að miklu leyti af svartsýnni verðbólguspá.

Innrásin í Úkraínu hefur töluverð áhrif á verðbólguspána, ekki síst vegna hærra hrávöruverðs. Þessi áhrif eru talin eiga eftir að koma betur í ljós á næstu mánuðum. Verðbólgan mun koma einstaklega illa við Rússa. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir 21,3 prósenta verðbólgu þar í landi á árinu og 14,3 prósentum á næsta ári.