Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Þinghúsið í Washington rýmt um stundarsakir

epa09550504 The sun rises on the House of Representatives and the Capitol dome as preparations for the arrival of President Biden are underway in the US Capitol in Washington, DC, USA, 28 October 2021. President Biden will be meeting with House Democrats to finalize a framework for his Build Back Better plan.  EPA-EFE/SHAWN THEW
 Mynd: EPA
Þinghúsið í Washington höfuðborg Bandaríkjanna var rýmt um stundarsakir í kvöld. Lögregla á Þinghúshæð greindi frá mögulegri ógn vegna óvenjulegrar ferðar flugvélar yfir borginni. Forseti fulltrúadeildar þingsins gagnrýndi flugmálayfirvöld harkalega.

Lögregla sem gætir öryggis þinghússins tilkynnti á sjöunda tímanum í kvöld að staðartíma að fylgst væri gaumgæfilega með ferð flugvélarinnar en fólki var skipað að yfirgefa húsið.

Hvorug deilda þingsins var að störfum. Í ljós kom að vélinni var ætlað að fljúga yfir National Stadium leikvanginn í borginni og hleypa út fallhlífarstökkvurum. Ferðin var því löngu ákveðin og skipulögð. 

Þinghúslögreglan greindi fljótlega frá því að engri ógn stafaði af ferðum flugvélarinnar en að brýnt hafi þótt að bregðast hart við. 

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sendi frá sér harðorða yfirlýsingu þar sem hún sagði það óafsakanlegt af hálfu Flugmálastjórnar Bandaríkjanna að láta undir höfuð leggjast að tilkynna fyrir fram um ferðir flugvélarinnar.

Með þeirri yfirsjón hefði fjöldi fólks fyllst skelfingu, og því muni fulltrúadeildin greina hvað fór úrskeiðis og hver hjá flugmálastjórn beri ábyrgð á mistökunum. 

Tíðindin vöktu mikla athygli vestanhafs enda almenningur enn minnugur atburðanna 11. september 2001 þegar farþegaþotum var flogið á byggingar í New York og Washington. Eins er árásin á þinghúsið 6. janúar 2021 Bandaríkjamönnum enn ofarlega í huga.