Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Sex fórust í flugslysi á Haítí

21.04.2022 - 07:30
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Að minnsta kosti sex fórust þegar lítil flugvél brotlenti í úthverfi höfuðborgar Haítí í gær. Vélin fórst skömmu eftir flugtak en hún var á leið frá höfuðborginni Port-au-Prince til bæjarins Jacmel í suðurhluta landsins. Forsætisráðherra landsins lýsir hryggð vegna slyssins.

AFP-fréttaveitan hefur þetta eftir Pierre Belamy Samedi lögreglustjóra í Carrefour-hverfinu en hann segir fimm hafa verið um borð í flakinu þegar hann kom að. Sömuleiðis hafi þrennt legið slasað utan við flakið.

Upphaflega var talið að flugmaður vélarinnar hafi lifað slysið af en lögregla bar það fljótlega til baka. Auk þeirra fimm sem voru í flugvélinni fórst ökumaður bifhjóls á jörðu niðri. Fimm slösuðust og voru fluttir á sjúkrahús.

Ariel Henry, forsætisráðherra Haítí lýsti mikilli hryggð vegna slyssins og sendi aðstandendum hinna látnu samúðarkveðjur. Flugumferð hefur aukist mjög undanfarið ár á Haítí en glæpahópar halda vegum til og frá höfuðborginni í heljargreipum. 
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV