Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rauði krossinn í Úkraínu borinn þungum sökum

epa09898999 Local boy Maksym rides on a bike in Yahidne village, Chernihiv region, Ukraine, 19 April 2022 (made available 20 April). On 24 February Russian troops had entered Ukrainian territory resulting in fighting and destruction in the country, a huge flow of refugees, and multiple sanctions against Russia.  EPA-EFE/OLEG PETRASYUK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Lyudmyla Denisova, umboðsmaður úkraínska þingsins, sakar Alþjóðanefnd Rauða krossins um að starfa í takt við vilja Rússa. Talsmenn samtakanna þvertaka fyrir þær ásakanir.

Gagnrýni Denisovu beinist að tilkynningu sem Rauði krossinn sendi frá sér í mars um þá fyrirætlun sína að opna hjálparmiðstöð fyrir úkraínska flóttamenn í Rostov-héraði í Rússlandi.

Stjórnvöld í Kyiv segja fólk hafa verið flutt þangað nauðungarflutningum. Denisova átti fund með fulltrúa Úkraínudeildar Rauða krossins í gær. Í kjölfarið staðhæfði hún í sjónvarpsviðtali að Rauði krossinn færi ekki að eigin reglum.

Hún vitnaði í gögn Sameinuðu þjóðanna sem hún sagði sanna að 550 þúsund Úkraínumenn, þar af 121 þúsund börn, hefðu verið fluttir nauðugir til Rússlands frá upphafi innrásar.

Hún sagði stjórnvöld ekki hafa hugmynd um frekari afdrif fólksins eða hvar það væri nákvæmlega niðurkomið. Það gæti jafnvel verið í fangabúðum. Denisova sagðist hvorki hafa fengið svör um það frá Rauða krossinum né Tatyönu Moskalkovu, rússneskum kollega sínum.

„Það er af og frá að Rauði krossinn skipuleggi eða framkvæmi nauðungarflutninga. Hann færi aldrei á svig við vilja fólks né alþjóðalög,“ segir í yfirlýsingu sem AFP-fréttaveitan hefur undir höndum.

Þar segir einnig að mikilvægt sé að halda uppi eðlilegum samskiptum við deiluaðila í stríðum svo unnt sé að veita þeim sem um sárt eigi að binda nauðsynleg bjargráð.

Rétt sé að kannaður hafi verið sá möguleiki að koma upp aðstöðu sunnanvert í Rússlandi með það að markmiði að draga úr þjáningum fólks í stríðinu, sem nú þegar séu yfirþyrmandi.