Kappræðurnar vörðu í þrjár klukkustundir þar sem Macron rifjaði upp pólítíska fortíð Le Pen sem hins vegar gagnrýndi mjög frammistöðu ríkisstjórnarinnar.
Le Pen staðfesti þann vilja sinn að banna notkun slæðunnar á almannafæri. Hún sagði hana vera einkennisbúning skapaðan af íslamistum en Macron svaraði að með því skapaði hún jarðveg fyrir borgarastyrjöld.
Hún hét því sömuleiðis að binda enda á óheftan fólksflutning til Frakklands sem hún staðhæfði að hefði komið af stað óbærilegri glæpaöldu um land allt.
Macron gerði að umtalsefni lán sem stjórnmálaflokkur Le Pen fékk frá tékknesk-rússneskum banka í aðdraganda kosninganna fyrir fimm árum. Með því væri hún háð Rússum og Vladimír Pútín Rússlandsforseta.
Hún sagðist hafa neyðst til þess að þiggja það lán enda hefðu franskir bankar ekki viljað hlaupa undir bagga.
Báðir frambjóðendur virðast helst beina orðum sínum að stuðningsfólki vinstrimannsins Jean-Luc Melenchon sem varð þriðji í fyrri umferð kosninganna.
Hann vill hvorki lýsa yfir stuðningi við Macron né hvetja kjósendur sína til að greiða honum atkvæði sitt.
Skoðanakannanir sýna að Macron nýtur meiri hylli kjósenda en Le Pen en greinendur benda á að enn eiga tíu prósent eftir að gera upp hug sinn. Frammistaða frambjóðendanna í kappræðunum er talin geta haft veruleg áhrif á þann hóp.