Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Uppfæra áhættumat vegna mögulegrar NATO-aðildar Finna

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Umræða hefst á finnska þinginu í dag, hvort sækja beri um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Fylgi við aðild Finna hefur undanfarna áratugi verið á bilinu 20 til 30 prósent, en fór yfir 60 prósent í skoðanakönnunum eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að íslensk stjórnvöld muni standa með ákvörðunum Finna og Svía varðandi mögulega aðild að bandalaginu. Þjóðaröryggisráð vinnur nú að uppfærslu á áhættumati fyrir Ísland.

„Út frá bæði atburðunum í Úkraínu og því sem mögulega getur fylgt - það er að segja mögulegri aðild Finna og Svía að Atlantshafsbandalaginu. Þannig þessi vinna stendur yfir.“

Katrín var sjálf í Finnlandi á dögunum og fundaði meðal annars með Sönnu Marin, forsætisráðherra Finna. Katrín segir ljóst að mjög róttækar breytingar séu að eiga sér stað í þjóðfélagsumræðunni í Finnlandi.

„Saga þeirra er mjög lituð af þessum nánu samskiptum við nágrannana í austri. Þá er þetta mjög mikil umskipti sem hafa orðið í samfélagsumræðunni, en það virðist vera mjög eindreginn vilji ef marka má skoðanakannanir sem ítrekað hafa verið gerðar á undanförnum vikum. “

Rússar hafa ekki beinlínis brugðist vel við þegar aðrar nágrannaþjóðir hafa verið að óska eftir aðild að NATO.

„Neinei, og við sjáum að þeir taka þessu ekki vel í opinberri umræðu. En ég horfi á þetta þannig að Finnar og Svíar taka sínar ákvarðanir og við munum standa með þeim í þeirra ákvörðunum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
 

Mynd með færslu
 Mynd: Katrín Jakobsdóttir - Instagram
Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, og Katrín Jakobsdóttir.