Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Staðan sjaldan verið jafn slæm“

20.04.2022 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vegagerðin vinnur nú hörðum höndum við að gera við holur sem hafa myndast í bundnu slitlagi. Sjaldan hafa fleiri holur myndast í vegum landsins enda var veturinn sérstaklega þungur.

Birkir Hrafn Jóakimsson, forstöðumaður á mannvirkjasviði Vegagerðarinnar, segir að staðan hafi sjaldan verið jafn slæm. Vegagerðin hafi þegar hafist handa við að fylla í holur en að framkvæmdir muni standa langt fram á sumar.

„Við tökum allar tilkynntar holur og fyllum í þær fyrst og þar sem umferðin er mest. Ástandið er til dæmis mjög slæmt á Vesturlandsvegi og við Kaplakrika í Hafnarfirði. Þetta hefur var erfiður vetur í sjálfu sér hvað umhleypinga varðar og það hafði mikil áhrif á malbikið.“

Hann segir stóru yfirlagnirnar ekki hafnar en farið verður í þær í maí. 

Fjöldi ökumanna skemmdi bíla sína og sprengdi dekk í vetur. Í mars höfðu um 170 ökumenn tilkynnt tjón á bílum til Vegagerðarinnar, langflestir á höfuðborgarsvæðinu en skemmdir eru um allt land.